Innlent

Mikið um sam­kvæmi og ekki allir sem virtu tíu manna há­markið

Sylvía Hall skrifar
Lögregla fékk þónokkrar ábendingar um hávaða í nótt.
Lögregla fékk þónokkrar ábendingar um hávaða í nótt. Vísir/Vilhelm

Hundrað mál voru skráð hjá lögreglu frá klukkan 17 síðdegis í gær til klukkan fimm í morgun. Fangageymslur voru nánast fullar eftir nóttina samkvæmt dagbók lögreglu og var fólk vistað það vegna hinna ýmsu mála.

Töluvert var um samkvæmi í nótt að sögn lögreglu, en hátt í þrjátíu tilkynningar bárust vegna hávaða úr samkvæmum í heimahúsum. Allur gangur hafi verið á því hvort fólk hafi virt tíu manna samkomubann eða ekki.

„Eitthvað virðist fólk vera farið að slaka á varðandi Covid,“ segir í dagbók lögreglu.

Á níunda tímanum í gærkvöld var einn handtekinn í miðbæ Reykjavíkur, en sá hafði verið að áreita vegfarendur. Lögregla reyndi að tala manninn til en þegar það bar ekki árangur var hann vistaður í fangaklefa.

Á öðrum tímanum í nótt var svo einstaklingur handtekinn í Breiðholti eftir að hafa gengið berserksgang á heimili sem hann var gestkomandi á. Var hann einnig vistaður í fangaklefa.

Þá var tilkynnt um líkamsárás í Hafnarfirði rétt fyrir klukkan þrjú í nótt og var árásarmaðurinn vistaður í fangaklefa. Lögregla hefur ekki upplýsingar um líðan árásarþola að svo stöddu.

Lögregla þurfti einnig að hafa afskipti af nokkrum ökumönnum í gærkvöldi og í nótt. Einn var stöðvaður skömmu fyrir níu í gærkvöldi sem reyndist undir áhrifum áfengis og fíkniefna, en sá hafði áður verið sviptur ökuréttindum.

Skömmu eftir miðnætti var svo ökumaður handtekinn eftir að hafa ekið á tvær kyrrstæðar bifreiðar og rafmagnskassa. Sá var „sótölvaður“ að sögn lögreglu, aldrei öðlast ökuréttindi í ofanálag og var hann vistaður í fangaklefa. Rétt fyrir klukkan tvö var svo ökumaður stöðvaður í Hafnarfirði vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×