„Lending er staðfest! Perseverance hefur lent heilt á húfi á yfirborði Mars,“ sagði Swati Mohan eftir lendinguna, en hún hafði yfirumsjón með ferð vélmennisins til Mars. Mikil fagnaðarlæti brutust út í stjórnstöð NASA í Pasadena í Kaliforníu-ríki en það hafði tekið tæplega tólf mínútur fyrir merki frá vélmenninu að berast til jarðar.
Næstu tvö árin mun vélmennið safna jarðvegssýnum og leita að mögulegum vísbendingum um líf sem gæti hafa verið á plánetunni. Vísindamenn telja líklegt að ef líf hafi verið á Mars, þá hafi það verið fyrir þremur til fjórum milljörðum ára síðan þegar vatn rann enn á plánetunni.
Bestu sýnin mun vélmennið undirbúa fyrir flutning aftur til jarðarinnar á næstu árum.
Þróaðasta vélmenni sem hefur lent á Mars
Perseverance, eða Percy eins og vélmennið er oft kallað, er stærsta og þróaðasta vélmenni sem NASA hefur sent til Mars en jafnframt það níunda sem lendir þar. Því var skotið á loft þann 30. júlí á síðasta ári.
Með í för er annað vélmenni, Ingenuity, sem er lítil þyrla sem reynt verður að fljúga um Mars. Ekki er vitað hvort það takist, en þyrlan er tæp tvö kíló og með fjóra 1,2 metra langa spaða sem snúast um 2.400 sinnum á mínútu, eða átta sinnum hraðar en hefðbundnir þyrluspaðar.
Takist að fjúga Ingenuity, myndi það opna á möguleikann á því að senda frekari fljúgandi vélmenni til Mars í framtíðinni og jafnvel þyrlur sem hægt væri að nota til að ferja búnað frá einum lendingarstað til annars.