Erlent

Stórtækustu böðlarnir utan Kína í Miðausturlöndum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fangi á bak við rimla í Egyptalandi. Aftökum stórfjölgaði þar í fyrra í kjölfar eftir fangauppreisn á dauðadeild í Tora-fangelsinu alræmda. Margir þeirra sem voru teknir af lífi voru dæmdir fyrir pólitískt ofbeldi í kjölfar valdaráns hersins árið 2013.
Fangi á bak við rimla í Egyptalandi. Aftökum stórfjölgaði þar í fyrra í kjölfar eftir fangauppreisn á dauðadeild í Tora-fangelsinu alræmda. Margir þeirra sem voru teknir af lífi voru dæmdir fyrir pólitískt ofbeldi í kjölfar valdaráns hersins árið 2013. AP/Amr Nabil

Fjögur af þeim fimm ríkjum sem tóku flesta af lífi í fyrra eru Miðausturlönd. Saman stóðu Íran, Egyptaland, Írak og Sádi-Arabía fyrir nærri því níu af hverjum tíu aftökum sem vitað er um með vissu í heiminum samkvæmt skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International.

Alls voru 483 aftökur sem vitað er um í heiminum í fyrra og hafa þær ekki verið færri í áratug. Af þeim fóru 88% fram í ríkjunum fjórum. Amnesty sakar ríkin um að sýna grimmd á sama tíma og flest ríki heims einbeita sér að því að bjarga mannslífum í heimsfaraldri.

Stór fyrirvari er við tölur Amnesty þar sem þær ná ekki til aftaka í Kína, Norður-Kóreu og Víetnam. Farið er tölur um aftökur sem ríkisleyndarmál í Kína en talið er að þúsundir manna séu teknir af lífi þar ár hvert, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Ekki er heldur hægt að staðfesta tölur um aftökur frá Norður-Kóreu eða Víetnam.

Aftökunum fækkaði um 26% á milli ára í fyrra og um 70% miðað við metárið 2015. Í Miðausturlöndum fækkaði aftökum úr 579 árið 2019 í 437 í fyrra. Stærsta ástæðan er sögð 85% fækkun aftaka í Sádi-Arabíu og 50% fækkun í Írak. Aftur á móti fjölgaði aftökum um 300% í Egyptalandi þar sem 107 voru teknir af lífi.

Bandaríkin eru eina vestræna ríkið sem komst á lista Amnesty. Þau voru í fimmta sæti á lista yfir flestar aftökur í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×