Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá embættinu, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu og segir þetta með grófari sóttvarnabrotum sem lögreglan hafi rannsakað. RÚV greindi fyrst frá málinu.
Maðurinn lauk einangrun vegna kórónuveirusýkingar á sunnudagskvöld og hefur lögregla ekki náð að yfirheyra hann fram að þessu.
Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 þann 19. apríl að maðurinn væri sakaður um að hafa brotið gegn skyldu um sóttkví við komuna til landsins um síðustu mánaðarmót og rofið einangrun eftir að hann greindist jákvæður í seinni sýnatöku.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið að maðurinn hafi komið af stað áðurnefndu hópsmiti á leikskólanum Jörfa í Bústaðahverfi.
Skikkaður í sóttvarnahús
Fram kom í frétt Mbl.is að maðurinn hafi verið fluttur í sóttvarnahús þann 12. apríl eftir að héraðsdómari féllst á kröfu sóttvarnalæknis um að manninum yrði gert að dvelja þar í einangrun.
Á þriðjudag var greint frá því að 107 smit hafi greinst í tengslum við hópsýkinguna. Þar af voru þrjátíu af hundrað börnum á leikskólanum og 23 af 33 starfsmönnum. Þá hafa 54 greinst utan leikskólans, þar á meðal fjölskyldumeðlimir.
Guðmundur Páll sagði í samtali við fréttastofu þann 19. apríl að lögregla hefði brugðist við um leið og grunur vaknaði um að smitaði einstaklingurinn væri ekki í einangrun. Þá virðist smitin þó hafa verið búin að dreifa sér.
Samkvæmt sektarfyrirmælum ríkissaksóknara getur sekt fyrir brot á sóttkví numið frá 50 til 250 þúsund krónum. Þá getur sekt fyrir brot á reglum um einangrun numið 150 til 500 þúsund krónum.