Verstu spár Bandaríkjamanna um mögulegt fall ríkisstjórnar Afganistans hafa versnað til muna á undanförnum dögum.
AFP fréttaveitan segir að ríkisstjórn Ashraf Ghani, forseta Afganistans, hafi boðið Talibönum í dag samkomulag um að deila völdum og hætta átökunum sem geisa nú víða í Afganistan.
Í heildina eru héraðshöfuðborgirnar 34 en borgin Ghazni, sem Talibanar tóku í morgun er í einungis 130 kílómetra fjarlægð frá Kabúl, höfuðborg landsins. Harðir bardagar geisa í nokkrum borgum til viðbótar.
Frá því Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í vor að hann myndi kalla alla hermenn Bandaríkjanna heim frá Afganistan hefur Talibönum vaxið ásmegin í landinu. Vígamenn þeirra hafa lagt undir sig stóra hluta landsins.
Sjá einnig: Biden segir Afgana þurfa að berjast fyrir landinu sínu
Talibanar hafa svo sótt í sig veðrið á undanförnum vikum og stjórna nú stórum hlutum landsins. Þar til fyrir viku síðan hafa þeir þó ekki stjórnað neinum héraðshöfuðborgum. AP fréttaveitan segir hraða sóknar Talibana hafa vakið spurningar um það hve lengi stjórnarherinn geti yfir höfuð haldið aftur af þeim.
Hér má sjá kort frá AFP fréttaveitunni sem sýnir þróun síðustu vikna.
Ríkisstjórinn handtekinn
Fjölmargir hafa þurft að flýja heimili sín og hafa farið til Kabúl eða til nágrannaríkja Afganistans.
Sjá einnig: Þúsundir leita skjóls í Kabúl en enda á götunni
Heimildarmenn AP segja ríkisstjóra og lögreglustjóra Ghazni hafa samið við Talibana um að þeir fengju að yfirgefa borgina í kjölfar uppgjafar. Myndbönd hafa stutt þær fregnir og í morgun bárust einnig fréttir um að ríkisstjórinn hafi verið handtekinn af ríkisstjórn Afganistans.
Hér má sjá sjónarpsfrétt AP um ástandið í Afganistan. Rætt er við sérfræðing um ríkið sem segir ríkisstjórn landsins í mikilli hættu. Hún njóti lítils stuðnings erlendra ríkja en Talibanar njóti enn stuðnings bakhjarla sinna eins og Pakistans, Írans og Rússlands.
Fall Ghazni felur meðal annars í sér að stjórnarherinn mun eiga erfiðara með flutning birgða og liðsauka frá Kabúl. Tvær herstöðvar við jaðar Ghazni eru þó sagðar enn í höndum stjórnarhersins.
Safna bandarískum vopnum
Samhliða sókn þeirra hafa Talibanar sleppt fjölda vígamanna úr fangelsum og komið höndum yfir fjölmörg vopn og hertæki stjórnarhersins.
Hér má sjá myndir sem Talibanar hafa verið að deila á samfélagsmiðlum. Þær sýna að þeir hafa lagt hald á fjölda vopna sem Bandaríkjamenn útveguðu stjórnarhernum. Þar á meðal er dróni og skriðdreki.
Ríkisstjórn Bidens vinnur nú að því að beita Talibana þrýstingi og reyna að fá þá til viðræðna við ríkisstjórn Ashrafs Ghani. Talibanar eru með skrifstofur í Katar en þar hafa nú erindrekar frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Kina, Evrópusambandinu, Sameinuðu þjóðunum, nágrönnum Afganistans og fleiri ríkjum komið saman.
Sjá einnig: Talibanar með pálmann í höndunum
Í frétt Washington Post segir að vonir séu bundnar við að sá þrýstingur muni duga til og Talibanar muni setjast aftur við samningaborðið.
Bandarískir erindrekar óttast þó að það sé þegar of seint.
Úr mánuðum í daga
Í nýlegri skýrslu sem leyniþjónustur Bandaríkjanna gáfu út í júní, kom fram að óttast var að ríkisstjórnin gæti fallið á sex til tólf mánuðum. Sú skýrsla hefur nú verið uppfærð og er nú talið að ríkisstjórnin gæti fallið á þrjátíu til níutíu dögum.
Árangur Talibana í norðurhluta landsins hefur komið sérstaklega á óvart. Þar hafa stríðsherrar hliðhollir ríkisstjórninni í Kabúl farið með völd og landshlutinn hefur verið einn sá friðsælasti í Afganistan og andspyrna við Talibana verið mikil.
Óttast upprisu al-Qaeda
Bandaríkjamenn hafa sömuleiðis áhyggjur af því að nái Talibanar aftur völdum í Afganistan gætu forsvarsmenn al-Qaeda notað landið aftur til að byggja upp hryðjuverkasamtökin á nýjan leik. Það sama gæti átti við Íslamska ríkið.
Talibanar voru reknir frá völdum í innrás Bandaríkjanna árið 2001. Það var í kjölfar þess að Talibanar höfðu staðið þétt við bakið á Al-Qaeda, hryðjuverkasamtökunum sem gerðu árás á Tvíburaturnana svokölluðu.
Samkvæmt frétt NBC News óttast forsvarsmenn herafla Bandaríkjanna að án nokkurrar viðveru í landinu yrði erfitt fyrir þá að koma í veg fyrir endurreisn al-Qaeda. Bæði vegna takmarkaðrar getu til upplýsingaöflunar og til árása.