Handbolti

Kári Kristján: Fengum einn á kjaftinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kári í baráttunni með Eyjamönnum. Hann skoraði fimm mörk í kvöld.
Kári í baráttunni með Eyjamönnum. Hann skoraði fimm mörk í kvöld. vísir/hag

„Þessi leikur á eftir að verða dýrmætur fyrir okkur til að læra af, við fengum eiginlega bara einn á kjaftinn. Það er einkunnin, einn á kjaftinn,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson línumaður ÍBV eftir 30-27 sigur Eyjamanna á Víkingum í Olís-deildinni í kvöld.

Eyjamenn voru ryðgaðir í upphafi en miðað við spár fyrir mótið mátti alveg búast við öruggum sigri Eyjamanna í Víkinni.

„Nú kemur frasadeildin, við þurfum að slípa okkur saman og allt það. Einstaklingsframtakið í seinni hálfleik er mjög sterkt hjá okkur og Rúnar (Kárason) eiginlega klárar seinni hálfleikinn hjá okkur. Róbert (Sigurðarson) var frábær varnarlega. Við hinir eigum svolítið í land og þurfum að stíga upp.“

Víkingsliðið eru nýliðar og þar að auki fengu þeir ekki sætið sitt í deildinni fyrr en seint í sumar þegar Kría dró sig úr keppni. Það var þó ekki að sjá í kvöld því Víkingar spiluðu hörkuvel lengi vel.

„Við eigum í gríðarlegum vandræðum með Jóhann (Reyni Gunnlaugsson) eiginlega mest allan leikinn. Hann skaut okkur í kaf í fyrri hálfleik en í þeim seinni byrjum við að vinna bolta og fáum auðveld mörk. Þetta fer að vinna með okkur þar og svo er Rúnar alveg sjóðandi heitur í seinni hálfleik.“

„Hann er frábær viðbót,“ sagði Kári um Rúnar sem gekk til liðs við ÍBV í sumar eftir fjölmörg ár í atvinnumennsku.

„Við erum risa félag í handboltanum og við viljum fá góða leikmenn til okkar. Hann er einn af þeim sem fellur inn í þetta mót hjá okkur, hann er heppinn,“ sagði Kári hress að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×