Lars er prófessor emeritus við Gautaborgarháskóla en hann er álitinn frumkvöðull á sviði íslenskra fræða.
Hann var að vonum sáttur með viðurkenninguna þegar fréttastofa settist niður með honum til að fara yfir ferilinn.
„Hún skiptir mig miklu máli því ég vildi ætíð að litið væri á mig sem fræðimann í forníslenskum fræðum," segir Lars.
Hann á þátt í að hafa umbylt sýn fræðimanna á íslenskar fornbókmenntir á síðustu öld með nýjum hugmyndum sínum.
Þær féllu þó ekki allar í kramið hjá íslenskum fræðimönnum við þann þjóðernissinnaða tíðaranda sem þá var uppi.
„Þegar ég hóf rannsóknir mínar voru allmargir á Íslandi mjög gagnrýnir á fræðastörf mín því ég lagði áherslu á evrópsk áhrif á forníslenskar bókmenntir," segir Lars.
Tók ranga afstöðu í handritamálinu
Afstaða hans til hins umdeilda handritamáls bætti síðan ekki úr skák.
„Auk þess varð mér á að vera á öndverðum meiði í handritamálinu snemma á sjötta áratugnum," segir Lars sem var talsmaður þess að handritin yrðu áfram í Kaupmannahöfn. Hann segir það hafa verið mikil mistök, sem hann sér eftir í dag. Tíminn hafi leitt í ljós að handritin væru mun betur nýtt og geymd hér á Íslandi þar sem hefur skapast ríkt fræðastarf í kring um þau.
Heiðursnafnbótin er honum því sérlega kær.
„Ég er eðlilega mjög ánægður með að fá nú heiðursnafnbótina, sem ég lít á sem merki um það að nú sé allt fallið í ljúfa löð og að sættir hafi nú náðst milli íslenskra fræðimanna og mín."