Innlent

Mögulegt að rækta pálmatré í Vogabyggð en trjánum fækkað í eitt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tillagan felur í sér að tréð verði ræktað í sívalningslaga smágróðurhúsi.
Tillagan felur í sér að tréð verði ræktað í sívalningslaga smágróðurhúsi. reykjavik.is

Mögulegt er að rækta pálmatré við þær aðstæður sem ríkja í Vogabyggð en Reykjavíkurborg hefur ákveðið, í samráði við höfund verðlaunatillögu um útilistaverk á svæðinu, að fækka trjánum úr tveimur í eitt.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Efnt var til samkeppninnar árið 2018 og hlutskörpust var þýska listakonan Karina Sanders en tillaga hennar gerði ráð fyrir að tveimur pálmatrjám yrði komið fyrir í turnlaga gróðurhúsum.

Heildarkostnaðurinn við verkið var metinn á um 140 milljónir króna og var framkvæmdin harkalega gagnrýnd af minnihlutanum í borgarstjórn og meðal annars líkt við stráin sem voru flutt inn til landsins og komið niður í margumtöluðum braggaframkvæmdum í Nauthólsvík.

Morgunblaðið hefur eftir Huld Ingimarsdóttur, skrifstofustjóra fjármála hjá menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar, að matsnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að tillagan væri framkvæmanleg en að raunhæfismatið sem fylgdi henni hefði verið of lágt.

Uppfært kostnaðarmat væri í skoðun og ákveðið hefði verið að fækka trjánum niður í eitt. Kostnaðurinn yrði því væntanlega lægri en áætlað var.


Tengdar fréttir

Vonar að útilistaverkið Pálmatré rísi í Vogabyggð

Safnstjóri Listasafns Reykjavíkur vonar að útilistaverkið Pálmatré rísi í nýju hverfi í Vogabyggð og spáir að það verði það mikill gleðigjafi. Hún segir að oft skapist mikil umræða og jafnvel gagnrýni um útilistaverk en umræðan um þetta verk í vetur hafi verið sérlega harkaleg.

Minnihlutinn í borginni æfur yfir pálmatrjám

Minnihluti borgarstjórnar vill að áform um að setja upp verkið Pálmatré í Vogabyggð verði endurskoðuð. Hugmyndin sé firring og fáránleg; fólki sé ofboðið.

Pálmatré og 30 metra hár ljósastaur rísa í Vogabyggð

Listaverkið Pálmatré eftir þýska listamanninn Karinu Sanders, varð hlutskarpast í einni viðamestu samkeppni um útilistaverk sem efnt hefur verið til í Reykjavík. Verkið mun rísa í nýju hverfi Vogabyggðar en í umsögn dómnefndar segir að tillagan sé í senn "óvænt, skemmtileg og djörf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×