Skoðun

Hvers virði eru Sam­tökin ‘78?

Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar

Ungmenni sem vill kynnast öðrum hinsegin ungmennum. Nemandi að skrifa lokaritgerð um hinsegin málefni. Ungt samkynja par sem flúið hefur ofbeldi og útskúfun í heimalandi sínu. Sveitarfélag sem vill stuðla að þekkingu á hinsegin málefnum hjá starfsfólki. Foreldrar barns sem var að koma út úr skápnum. Eldri hommi sem vill bara spjalla. Íþróttafélag sem þarf fræðslu. Intersex manneskja sem þarf sálrænan stuðning.

Blaðamaður að skrifa grein um stöðu hinsegin fólks í Ungverjalandi. Skólastjóri sem stendur ráðþrota gagnvart fordómafullu andrúmslofti meðal nemenda. Trans manneskja sem þarf að kæra mismunun. Stéttarfélag sem ætlar að uppfæra eyðublöð samkvæmt lögum. Þingmaður að skrifa lagafrumvarp. Prófarkalesari sem vill læra að nota hán. Alþjóðleg stofnun sem þarf upplýsingar um stöðu mála á Íslandi. Barn sem býr við ofbeldi vegna hinseginleika.

Þetta eru allt dæmi um fólk og félög sem leita til Samtakanna ‘78 á ári hverju. Þau og svo ótalmörg fleiri.

Á undanförnum árum hefur Samtökunum ‘78 í fyrsta sinn gefist fjárhagslegt ráðrúm, þökk sé þjónustusamningum og tímabundnum fjárframlögum hins opinbera, til þess að þróa starfsemi sína áfram með auknu starfsmannahaldi og umsvifum. Þessar breytingar hafa leitt í ljós gríðarlega mikla þörf á faglegri þjónustu í málefnum hinsegin fólks á Íslandi. Uppsafnaða þörf. Segja má að á síðustu árum hafi snjóbolti farið af stað, með vexti sem enn sér ekki fyrir endann á, því þjónustuþættir Samtakanna ‘78 hafa fimmfaldast á jafn mörgum árum. Sem dæmi voru ráðgjafatímar 145 talsins árið 2015, en í fyrra voru þeir orðnir 1115.

Við höfum gert okkar besta til þess að mæta auknum verkefnum af ábyrgð og með markvissri fagvæðingu starfsins. Hjá Samtökunum ‘78 eru nú níu ráðgjafar, fimm stuðningshópar, fagleg félagsmiðstöð fyrir hinsegin ungmenni, fræðslustýra og þrír fræðarar, skrifstofa sem annast almenn erindi og þá er ótalið allt framlag sjálfboðaliða í hinum ýmsu verkefnum. Ásamt þessu erum við svo auðvitað hefðbundin félagasamtök, sinnum hagsmunabaráttu og höldum viðburði af ýmsu tagi.

Það er flókið að reka félag sem þarf að stækka svo hratt til þess að uppfylla þörf samfélagsins. Við höfum enn ekki náð jafnvægi. Á sama tíma stöndum við sífellt frammi fyrir rekstraróvissu vegna breytilegs framlags hins opinbera.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2022 hefur tímabundið framlag til Samtakanna ‘78 verið fellt brott. Gangi það eftir verður starfsemi okkar ekki svipur hjá sjón á næsta ári. Þessu þarf því að snúa við og raunar þarf að bæta verulega í. Samfélagslegt mikilvægi Samtakanna ‘78 er nefnilega gríðarlegt. Allt fólkið sem leitar til okkar getur vottað fyrir það. Ég hvet fjárlaganefnd og Alþingi til að tryggja Samtökunum ‘78 nægt fjármagn til þess að standa undir hlutverki sínu. Hinsegin fólki og samfélaginu öllu til heilla.

Höfundur er formaður Samtakanna ‘78.




Skoðun

Sjá meira


×