Handbolti

Jón Gunnlaugur: Ég er töluvert ósáttur með vinnubrögðin

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Jón Gunnlaugur, þjálfari Víkings var sáttur með seinni hálfleikinn í dag
Jón Gunnlaugur, þjálfari Víkings var sáttur með seinni hálfleikinn í dag Vísir:Hulda Margrét

Jón Gunnlaugur Viggósson þjálfari Víkings í handbolta, var ósáttur með fyrri hálfleikinn en töluvert sáttari með þann seinni þegar að liðið tapaði á móti KA í 13. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

„Mér fannst bara eitt lið komið í jólafrí eftir fyrri hálfleik og eitt lið sem ætlaði sér að taka tvö stig. Það vantaði allt hjá okkur fyrstu 30 mínúturnar, vörn, markvörslu, sókn. Tölfræðiblaðið var bara tómt.“

Það var ekki sjón að sjá spilamennsku Víkinga í fyrri hálfleik og voru þeir 12 mörkum undir í hálfleik, 18-6. Þeir tóku hinsvegar við sér í seinni og var allt annað að sjá liðið. 

„Við erum búnir að vera með leikmenn sem eru tæpir og meiddir. Við erum búnir að spila leikkerfi og æfa okkur á keilur. Þegar við mætum loksins almennilegri vörn þá bökkum við og erum ragir. Við erum að skjóta illa á markið og erum ekki að klukka. Við fórum í 7 á 6 sem gekk frábærlega og seinni hálfleikurinn var frábær hjá okkur. Það vill oft verða þannig hjá liðunum í neðstu sætunum að það vill verða rússíbani. Við erum búnir að vera flottir upp á síðkastið en þetta var ákveðin skellur í dag.“

Hamza var ekki með í kvöld en hann meiddist á móti Stjörnunni. Nú er hinsvegar staða mála svoleiðis að Afturelding er búin að rifta samningnum við Hamza og hann víst á leiðinni til Katar án vitundar Víkings.

„Hamza meiðist hérna eftir 14. mínútur á móti Stjörnunni og er ekki með í seinasta leik og ekki núna. Ég veit ekki betur en að Afturelding sé búin að rifta við hann og þeir eru ekki búnir að hafa samband við okkur varðandi það. Mér skilst að hann sé að fara til Katar að spila þar. Ég er töluvert ósáttur með vinnubrögðin sem voru hinumegin við borðið. Þetta endurspeglar sér í mörgu.“

Nú er að koma jóla- og landsleikja hlé og ætla Víkingar að nýta tímann vel og mæta tvíelfdir til leiks í febrúar. 

„Það er búið að vera mikill stígandi hjá okkur. Liðið sem tók leiki 3-8 er allt annað en liðið sem er búið að spila hérna upp á síðkastið. Maður getur ekki verið annað en bjartsýnn en það er mikil vinna framundan og við þurfum að vinna í okkar málum í janúar. Mæta tvíelfdir til leiks í febrúar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×