Innlent

Leggja til að Allir vinna verði framlengt að hluta til

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ýmis hagsmunasamtök hafa barist fyrir því að átakið verði framlengt.
Ýmis hagsmunasamtök hafa barist fyrir því að átakið verði framlengt. Vísir/Vilhelm

Meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hefur lagt til að Allir vinna átakið verði framlengt út ágústmánuð næsta árs, með ákveðnum breytingum þó.

Sem hluti af átakinu Allir vinna hafa stjórnvöld meðal annars veitt endurgreiðslu á öllum virðisaukaskatti í tengslum við vinnu, endurbætur og viðhald á íbúðar- og frístundahúsnæði, viðgerðir og réttingar fólksbíla og heimilisaðstoð.

Á síðasta ári hækkuðu stjórnvöld hlutfall endurgreiðslna og útvíkkuðu skilyrði í tengslum við aðgerðir vegna heimsfaraldursins. Átakið átti að renna sitt skeið á enda um áramótin og enga tillögu um að framlengja það var finna í fjárlagafrumvarpi næsta árs eða bandormnum svokallaða.

Í breytingatillögu meirihluta nefndarinnar við bandorminn svokallaða segir að meirihlutinn telji ekki tímabært að fella niður átakið. Er lagt til að úrræðið verði framlengt til og með 31. ágúst næstkomandi að því er varðar endurgreiðslu vegna vinnu iðnaðar og verkamanna sem unnin er á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur íbúðarhúsnæðis.

Frá og með 1. september 2022 miðist endurgreiðslan við 60 prósent. Þó leggur nefndin til að frá og með 1. janúar næstkomandi falli endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna við bílaviðgerðir, bílamálningu eða bílaréttingar fólksbifreiða niður.

Einnig er reiknað með að ívilnun vegna vinnu við aðra þætti sem tilgreindir eru í ákvæðinu laga um átakið, það er vegna vinnu iðnaðar- og verkamanna sem unnin er á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur frístundahúsnæðis, og húsnæðis í eigu sveitarfélaga, vinnu við hönnun og eftirlit með byggingu, endurbótum og viðhaldi og frístundahúsnæðis og vinnu manna vegna heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis, verði framlengd til og með 30. júní 2022.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×