Skoðun

Hús­næðis­markaður í heljar­greipum borgar­línu

Baldur Borgþórsson skrifar

Fyrir hartnær fjórum árum voru fögur fyrirheit gefin í aðdraganda borgarstjórnarkosninga.

Nú skyldi einblínt á hagkvæmt húsnæði fyrir alla.

Nú skyldi öllum gert kleift að kaupa sér húsnæði - heimili á viðráðanlegu verði.

Fjögur ár eru senn liðin og afraksturinn blasir við:

Neyðarástand ríkir á húsnæðismarkaði borgarinnar sem aldrei fyrr.

Sem dæmi er að verð á eins herbergis íbúðum upp á 30 til 40 fermetra komið yfir 40 milljónir og slíkar íbúðir stoppa afar stutt.

Hvort heldur téðar íbúðir eru á Hverfisgötu eða í Úlfarsárdal, gildir einu eins og nýleg dæmi sanna.

Skiljanlega spyrja margir sig hvað varð um hagkvæma húsnæðið sem núverandi valdhafar í Ráðhúsi Reykjavíkur boðuðu með pomp og pragt í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga?

Skýringin er í raun einföld.

Um húsnæðismarkað gilda sömu lögmál og gilda um alla aðra markaði.

Framboð og eftirspurn þarf að vera í jafnvægi.

Besta staðan fyrir kaupendur er að framboð sé ívið meira en eftirspurn.

Þannig er tryggt að verð haldist í jafnvægi.

Snemma á yfirstandandi kjörtímabili sáust þess skýr merki að fögur fyrirheit valdhafa voru orðin tóm.

Hver hugmyndin á fætur annarri um uppbyggingu þúsunda íbúða í efri byggðum borgarinnar þar sem nóg er plássið, voru slegnar út af borðinu.

Oftar en ekki með þeim rökum ,,að slík uppbygging samræmist ekki áformum um borgarlínu.“

Húsnæðismarkaður borgarinnar er því í heljargreipum borgarlínu og þeirra sem að henni standa, núverandi valdhafa Ráðhússins.

Það sem veldur mestum ugg er að borgarstjóri talar enn eins og allt sé í himnalagi - að árangur undanfarinna fjögurra ára sé stórkostlegur.....

Höfundur er varaborgarfulltrúi og gefur kost á sér í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×