Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tilkynnti lokun loftrýmisins á Twitter nú í morgun og bætist Ísland þar með í hóp Finnlands, Búlgaríu, Tékklands, Eistlands, Þýskalands, Litháen og Póllands sem öll hafa lokað á rússneskar flugvélar.
Iceland has decided to close its airspace to Russian air traffic, in solidarity with #Ukraine
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (@thordiskolbrun) February 27, 2022
Þá munu rússneskir diplómatar, viðskiptafólk, þingmenn og fulltrúar stjórnvalda ekki fá að koma hingað til lands en það tilkynnti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Sprengisandi á Bylgjunni nú rétt eftir tíu.
„Við vorum að upplýsa fulltrúa rússneskra stjórnvalda um lokun lofthelginnar núna í morgun, hér á Íslandi. Öll loftför skráð í Rússlandi geta ekki flogið um íslenska lofthelgi. Síðar í dag verður tilkynnt um vegabréfsáritanir, að það verður sett stopp á þær,“ sagði Katrín.
Hægt er að hlusta á Sprengisand í beinni útsendingu í spilaranum hér að neðan.
Uppfært klukkan 11:30
Árétting hefur borist frá utanríkisráðuneyti Íslands þess efnis að aðgerðum stjórnvalda er miða að vegabréfsáritunum sé ekki beint að almennum rússneskum ferðamönnum, námsmönnum og öðrum sem fá áfram venjubundna afgreiðslu umsókna sinna um áritun. Þeim sé beint að rússneskum diplómötum, viðskiptafólki, þingmönnum og fulltrúum stjórnvalda, sem fái ekki að koma hingað til lands.