Um­fjöllun, við­töl og myndir: FH - Valur 30-22 | Heima­­­menn hefndu fyrir tapið í bikarnum

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
FH fagnar að leik loknum.
FH fagnar að leik loknum. Vísir/Vilhelm

FH-ingar fengu nýkrýnda bikarmeistara Vals í heimsókn í 18. umferð Olís-deildar karla í kvöld. Liðin mættust síðast í undanúrslitum Coca-cola bikarsins þar sem Valsmenn slóu FH út og því við hörkuleik að búast. Lokatölur 30-22.

Það var ljóst á fyrstu mínútum leiksins að FH-ingar ætluðu að hefna fyrir síðustu viðureign liðanna. FH tók forystuna strax og kom sér í 5-0 og þá hófst leikur kattarins að músinni.

Þegar um stundarfjórðungur var liðin af leiknum var staðan 9-5. Valsmenn áttu í fullu fangi með að elta og töpuðu boltanum í gríð og erg. Þegar 20 mínútur voru liðnar tók Snorri Steinn, þjálfari Vals leikhlé en skilaði það litlu sem engu og leiddu FH-ingar með 8 mörkum þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks 17-9.

Menn börðust.Vísir/Vilhelm

FH-ingar héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og héldu Valsmenn áfram að elta. Seinni hálfleikur var sama uppskrift og fyrri hálfleikur. Valsmenn héldu áfram að tapa boltanum og FH að skora. Þegar stundarfjórðungur var eftir leiddu FH með 10 mörkum, 23-13.

Í stöðunni 26-14 reyndu Valsmenn að laga stöðuna en það var orðið alltof seint og endaði leikurinn með 8 marka sigri FH, 30-22.

Af hverju vann FH?

Þeir mættu einfaldlega til leiks hér í kvöld. Þeir töpuðu nýlega fyrir Val og voru greinilega búnir að vinna heimavinnuna sína þegar þeir mættu á parketið í kvöld. Varnarleikurinn þeirra var til fyrirmyndar og skilaði það sér í markvörslu og sóknarleikurinn var góður. Þeir voru að stela boltanum og fá hraðaupphlaup úr því.

Hverjir stóðu uppúr?

Phil Döhler átti frábæran leik í liði FH.Vísir/Vilhelm

Hjá FH-ingum voru það Einar Örn Sindrason og Jakob Martin Ásgeirsson atkvæðamestir með fimm mörk hvor. Ásbjörn Friðiksson sem náði þeim merka áfanga í kvöld að verða markahæsti leikmaður í sögu Olís-deildarinnar var með fjögur mörk.

Phil Döhler fór á kostum í marki FH-inga, hann var með 17 bolta varða, 45% markvörslu.

Hjá Valsmönnum voru Arnór Snær Óskarsson og Magnús Óli Magnússon atkvæðamestir með sex mörk hvor.

Hvað gekk illa?

Valsmenn voru ólíkir sjálfum sér í kvöld. Varnarleikurinn var slakur og hrökk markvarslan aldrei í gang. Í sóknarleiknum töpuðu þeir mikið af boltum og áttu erfitt með að koma boltanum í netið.

Björgvin Páll hefur átt betri leiki.Vísir/Vilhelm

Hvað gerist næst?

Laugardaginn 26. mars kl 18:00 fá Valsmenn Fram í heimsókn.

Sunnudaginn 27. mars kl 19:30 fá FH-ingar Stjörnuna í heimsókn.

Okkur tókst að vera í mómentinu allan leikinn

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH.Vísir/Vilhelm

„Mér líður rosalega vel,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, eftir sigur á Val í 18. umferð Olís-deildar karla.

FH-ingar mættu gríðarlega öflugir til leiks og náðu forystunni strax á fyrstu mínútunum. Það gekk allt upp hjá þeim í kvöld.

„Frábær liðs frammistaða og okkur tókst að vera í mómentinu allan leikinn. Taka eina sókn og eina vörn í einu og það skilaði þessum frábæra sigri.“

Það var mikið um að vera á bekk FH í kvöld.Vísir/Vilhelm

FH og Valur mættust í undanúrslitum Coca-cola bikarsins þar sem Valsmenn slóu FH-inga út. Þeir gerðu unnu heimavinnuna sína vel sem skilaði sigri í kvöld.

„Við reynum alltaf að gera það. Við vorum að sjálfsögðu ósáttir og ekki sáttir við frammistöðuna okkar í síðasta leik, þá förum við í það sem má bæta og við gerðum það í þetta skipti.“

Sigursteinn vill halda áfram að búa til svona frammistöður í næstu leikjum en þeir taka á móti Stjörnunni í næstu umferð.

„Það er þetta sem við erum búnir að vera gera í vetur. Að reyna búa til frammistöðu í hverjum einasta leik og það tókst í dag. Vonandi tekst það áfram.“

Maður vanmetur ekki lið eins og FH

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals.Vísir/Vilhelm

Snorri Steinn, þjálfari Vals, var svekktur eftir tap á móti FH í kvöld. Valsliðið skoraði ekki fyrstu fimm mínúturnar og voru að elta FH allan leikinn.

„Það er lítið hægt að segja. Gríðarleg vonbrigði og vonbrigði með frammistöðuna, holninguna á okkur, hún er hræðileg og okkur ekki til sóma. Þetta var mjög verðskuldað á móti mjög góðu FH-liði.“

Valsmenn unnu FH í undanúrslitum í bikarnum og virtist þeir mæta með vanmat í þennan leik en Snorri var ósammála því. Hann segir að léleg frammistaða á öllum vígstöðum hafi orsakað tapið.

„Maður vanmetur ekki lið eins og FH, við erum í engri aðstöðu til þess þótt við vinnum einhvern titil. Ég veit ekki hvað orsakar, það stendur ekki steinn yfir steini hjá okkur á flestum vígstöðum, allir að spila illa. Vörn, markvarsla, hraðaupphlaup, sóknarleikurinn er lélegur í dag og lítið annað um það að segja.“

Fyrir næsta leik vill Snorri Steinn að Valsmenn svari fyrir sig en þeir taka á móti Fram í næstu umferð Olís-deildarinnar.

Myndir

Róbert Aron og félagar áttu ekki sinn besta dag.Vísir/Vilhelm
Jóhann Birgir átti fínan leik í liði FH.Vísir/Vilhelm
Það var hart barist í kvöld.Vísir/Vilhelm
Líf og fjör.Vísir/Vilhelm
Bekkurinn hjá FH gat leyft sér að fagna.Vísir/Vilhelm
Magnús Óli átti fínan leik í liði Vals. Einn af fáum.Vísir/Vilhelm


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira