Eldgosið í Meradölum mallar áfram og hefur trekkt að sér fjölda forvitinna ferðalanga, innlendra sem erlendra. Sigurður Ingi, ráðherra innviða, virðist þó ekki vera á leiðinni að skoða gosið, frekar en það sem gaus á sömu slóðum á síðasta ári.
„Nei, ég hef ekki farið upp að gosinu og sleppti hinu líka. Nú er spurningin hvort ég verði ekki að halda mig við það að sleppa öllum svona gosferðum. Það sagði við mig maður að ef maður sæi eldgos ætti maður að hlaupa frá þeim en ekki að þeim. Auðvitað er allt hægt undir öruggum kringumstæðum,“ sagði Sigurður Ingi léttur í bragði að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Nokkuð hefur verið rætt um flugvelli og öryggi þeirra í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesi, enda Keflavíkurflugvöllur ekki langt frá eldgosasvæði síðustu tveggja ára á Reykjanesi. Hugmyndir hafa verið uppi um nýjan flugvöll í Hvassahrauni, einnig á Reykjanesi. Því hefur verið velt upp að jarðhræringarnar á Reykjanesi dragi úr fýsileika þeirra hugmynda.
Vonast til þess að náttúruöflin láti Keflavíkurflugvöll í friði
Í haust er von á bráðabirgaðaniðurstöðum starfshóps sem hefur verið að kanna fýsileika vallarins. Veðurstofan hefur það hlutverk að kanna aðstæður með tilliti til náttúruvár. Í viðtali við fréttastofu að loknum ríkisstjórnarfundi sagði Sigurður Ingi að hann vilji leyfa vísindamönnum að klára það mat.
„Ef að það er úti þá þurfa menn að horfast annað hvort í augu við það að Reykjavíkurflugvöllur verður hér lengur sem slíkur eða við þurfum þá að horfa til lengri framtíðar hvað þá varðar annan nýjan alþjóðaflugvöll. Ég minni á að við erum í mikilli uppbyggingu í Keflavík. Að öllum líkindum, ef guð lofar og náttúruöflin, þá gætum við verið að byggja hann upp næstu tuttugu til tuttugu og fimm árin,“ sagði Sigurður Ingi.