„Það hafa ekki orðið neinar breytingar í nótt, þetta mallar bara áfram,“ segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi. Mælingar gærdagsins benda til þess að hraunflæði í gosinu sé um tíu til fimmtán rúmmetrar á sekúndu. Þegar mest lét var flæðið 32 rúmmetrar á sekúndu.
Eldgosið heldur sig enn við sömu sprunguna sem er orðin um eitt hundrað metrar að lengd. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að engin merki séu um að nýjar sprungur séu byrjaðar að myndast við gosstöðvarnar. Líklegast sé að slík sprunga myndi opnast til norðausturs þar sem kvikugangurinn liggur og fjarri þeirri hefðbundnu gönguleið sem fólk fari nú að svæðinu.
Lítið skyggni í dag og ekkert ferðaveður á morgun
Hæg sunnan- og suðvestanátt verður í dag á gosstöðvunum og súld og þoka. „Það gæti rofað aðeins til seinna í dag en það er hætt við að skyggnið verði ekki skemmtilegt,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi.
Hún segir að lítið muni sjást til gossins frá hnjúkunum í kringum gosið þar sem fólk hefur horft á gosið. „Þannig að ég veit ekki hvað fólk sér,“ segir Elín Björk.
Þá segir hún að strax í fyrramálið muni hvessa mikið á svæðinu og rigna hressilega. Ekkert ferðaveður verði á morgun. „Ekki nema mögulega annað kvöld en það er samt hvasst þá. Þannið það er sennilega skynsamlegast að gera eitthvað annað á morgun,“ segir Elín Björk.
Veður var ekki gott við gosstöðvarnar í gær en fólk lét það lítið á sig fá og gekk að Meradölum í stríðum straumi.
Elín Björk segir að unnið sé að því að uppfæra gasmengunarspá Veðurstofunnar en nýjustu upplýsingar þaðan benda til þess að nokkuð gas muni fara yfir Þorlákshöfn og nágrenni til austurs í dag.