Innlent

Helgi nýr verk­efna­stjóri hjá nefnd um upp­byggingu þjóðar­hallar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Helgi er nýr verkefnastjóri framkvæmdanefndar um uppbyggingu þjóðarhallar.
Helgi er nýr verkefnastjóri framkvæmdanefndar um uppbyggingu þjóðarhallar. Vísir/Vilhelm

Helgi Geirharðsson er nýr verkefnastjóri hjá framkvæmdanefnd um uppbyggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Helgi mun vinna að gerð gagna í umboði framkvæmdanefndarinnar og undirbúa og boða fundi í samstarfi við formann nefndarinnar.

„Helgi hefur víðtæka reynslu af uppbyggingu innviða, bæði sem verkefnastjóri og ráðgjafi. Hann hefur unnið að uppbyggingu innviða á Hlíðarenda, í Skerjafirði, í Sundahöfn og Faxaflóahöfnum, í Bláa lóninu, á Hellisheiði og erlendis, bæði fyrir ríki og sveitarfélög og fyrirtæki á borð við Carbfix, Marel, Bechtel, Brimborg og Samskip,“ segir í tilkynningunni.

Íþróttamál í landinu heyra undir Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sem stofnaði síðastliðinn vetur starfshóp um uppbyggingu þjóðarleikvanga. Í maí síðastliðnum var síðan undirrituð viljayfirlýsing stjórnvalda og Reykjavíkurborgar um nýja þjóðarhöll. Í kjölfarið var áðurnefnd framkvæmdanefnd um uppbyggingu slíkrar hallar stofnuð.

„Hlutverk framkvæmdanefndar er að leiða faglega vinnu vegna allra þátta uppbyggingar mannvirkisins og skipulags því tengdu s.s. vegna hönnunar, útboða, tæknilegrar útfærslu, rekstrarforms og hvernig staðið verður að fjármögnun. Einnig að fylgja eftir að nauðsynlegir verkþættir vegna uppbyggingar mannvirkis fyrir innanhússíþróttir í Laugardal séu framkvæmdir samkvæmt þeim reglum sem gilda um opinberar framkvæmdir. Er þá átt við frumathugun, áætlunargerð, verklega framkvæmd og skilamat. Hópnum er falið að útbúa tímasetta framkvæmdaáætlun vegna uppbyggingar mannvirkisins.

Framkvæmdanefndin vinnur sín verkefni í samráði við starfshóp um uppbyggingu þjóðarleikvanga og kallar til ráðgjafa eftir því sem við á. Hún gefur starfshópnum reglulegar upplýsingar um framgang verkefnisins auk þess að tryggja nauðsynlegt samráð við ráðgjafaráð skipað hagsmunaaðilum og öðrum notendum mannvirkisins.

Ráðgert er að byggingaframkvæmdum verði lokið á árinu 2025,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×