Innlent

Rennslið enn að aukast í Gígju­kvísl

Atli Ísleifsson skrifar
Svona var umhorfs við brúna yfir Gígjukvísl í gærmorgun.
Svona var umhorfs við brúna yfir Gígjukvísl í gærmorgun. Veðurstofan

Rennsli hefur haldið áfram að aukast í Gígjukvísl og hefur íshellan í Grímsvötnum nú lækkað um þrettán metra frá því að hlaup hófst fyrr í vikunni.

Þetta segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við fréttastofu í morgun. „Rennslið hefur verið að aukast jafnt og þétt, ekki sérlega hratt. Það er komin um 45 sentimetra hækkun á vatnsborðinu í Gígjukvísl, miðað við fyrir hlaup.“

Salóme leggur áherslu á að mælingin á vatnborðinu sé dempuð, annars vegar þar sem það sé lón við jökulsporðinn og hins vegar sé vítt flæði undir brúnni sem geti dregið úr vatnshæðinni. 

„En við erum enn að fylgjast með, staðan er í raun svipuð. Það er komin þrettán metra lækkun á íshellunni. Enginn gosórói,“ segir Salóme.

Hún telur að ekki sé langt í að rennsli í Gígjukvísl nái hámarki miðað við hvað íshellan hefur sigið, en talið er að hún muni lækka að hámarki um fimmtán metra.

Fyrir hlaup var vatnsstaða lág í Grímsvötnum og því sé von á litlu hlaupi, um fimm hundruð rúmmetrar á sekúndu, eða tæplega fimmtungi á við síðasta hlaup í desember á síðasta ári.


Tengdar fréttir

Á­fram búist við að rennsli nái há­marki síð­degis eða í nótt

Sérstæðingar Veðurstofunnar gera enn ráð fyrir að rennsli í Gígjukvísl muni ná hámarki seinnipartinn í dag eða næstu nótt. Rennslið er nú komið í 350 rúmmetra á sekundu og er ráð fyrir gert að það verði 500 rúmmetrar á sekúndu þegar rennslið nær hámarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×