Innlent

„Við þurfum að bregðast við af mikilli hörku“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að ekki sé hægt að bíða með að grípa til aðgerða gegn auknum vopnaburði og skipulagðri glæpastarfsemi.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að ekki sé hægt að bíða með að grípa til aðgerða gegn auknum vopnaburði og skipulagðri glæpastarfsemi. vísir/vilhelm

Dómsmálaráðherra og forsætisráðherra eru sammála um að grípa verði til aðgerða gegn auknum vopnaburði og skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Fréttir af hnífstunguárás á Bankastræti Club í gærkvöldi séu virkilega óhugnanlegar. 

„Við getum ekki horft fram hjá því að það er vaxandi vopnaburður og þarna virðist vera um alvarlegra atvik en við höfum verið að sjá á undanförnum vikum og mánuðum í þeim efnum. Og við verðum að bíða rannsóknar lögreglu á þessum atburði sérstaklega,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. 

Frumvarp Jóns um auknar rannsóknarheimildir lögreglu er nú í meðferð á þinginu en Jón segir það gríðarlega mikilvægt til að lögregla hafi betri tól til að taka á skipulagðri brotastarfsemi. 

„Öll okkar vinna í ráðuneytinu hún ber af sama brunni; við þurfum að bregðast við af mikilli hörku gagnvart skipulagðri brotastarfsemi og þeim vopnaburði meðal annars sem henni fylgir og bara almennri ógn við okkar samfélag. Það er ekki hægt að bíða neitt með það. Það er ekki hægt að gera ekki neitt í þeim efnum núna.“

Snýst ekki bara um lagabreytingar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er einnig á því að grípa verði til aðgerða til að taka á auknum vopnaburði. 

„Það er fyrirhuguð bæði endurskoðun á vopnalögum og líka endurskoðun á lögreglulögum; hvernig við getum tryggt aðstæður lögreglu til að sinna sínum störfum. Þar snýst málið kannski ekki um lagabreytingar fyrst og fremst heldur ekki síður hvernig við stöndum að rekstri lögreglunnar og fjármögnun hennar þannig að við séum að sinna þessu verkefni með fullnægjandi hætti,“ segir Katrín. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×