Skoðun

Lömbin þagna

Tómas Ellert: Tómasson skrifar

Ýmsir þingmenn, ráðherrar og fyrrverandi þingmenn og ráðherrar hafa undanfarið verið að tjá sig um núverandi ríkisstjórnarsamstarf á hinum ýmsu miðlum. Ráðherrarnir sem náðst hefur til eru vel sáttir með samstarfið og þau fríðindi sem stólarnir veita þeim. Hinir láta svo líta út fyrir að vera argir út í aðild sína og síns flokks að samstarfinu og hafa látið púðurskotin dynja á flokk sínum, samstarfsflokkum og jafnvel á sjálfum sér. Það virðist einnig sammerkt þeim sem tilheyra ríkisstjórnarflokkunum að þeir telji samstarfið mikilvægara fyrir þjóðina en þjóðin sjálf telur það vera. Það hafa skoðanakannanir sýnt að undanförnu.

Um margt minnir orðræða og hegðun stjórnarliða á geitunginn sem var að fljúga yfir tún eitt að sumarlagi. Geitungurinn var þreyttur og til að hvíla sig settist hann á oddinn á einu horni nauts sem stóð þar og tuggði gras í mestu makindum. Eftir að geitungurinn hafði hvílt sig stutta stund á horninu bjóst hann til flugs. En áður en hann fór bað hann nautið afsökunar á því að hafa notað hornið hans sem hvíldarstað.

„Þú hlýtur að vera mjög ánægður með að ég sé á förum,“ sagði hann. „Ekkert breyst hjá mér,“ svaraði nautið. „Ég vissi ekki einu sinni að þú værir þarna.“

Eða með öðrum orðum, ríkisstjórnin sér sjálfa sig stærri og mikilvægari fyrir þjóðina með sínum augum en þjóðin sér hana með sínum eigin augum. Og krafturinn í púðurskotunum fer einnig hratt dvínandi líkt og eldgosið við Litla hrút. Lömbunum hefur nefnilega verið skipað að þagna.

Höfundur er byggingarverkfræðingur og fyrrverandi bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg.




Skoðun

Sjá meira


×