Innlent

Al­­­menningur þurfi að vera með­vitaður um að man­­­sal sé til á Ís­landi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Alda Hrönn Jóhanns­dóttir, yfir­lög­fræðingur hjá lög­reglunni á Suður­nesjum.
Alda Hrönn Jóhanns­dóttir, yfir­lög­fræðingur hjá lög­reglunni á Suður­nesjum. Vísir/Arnar

Yfir­lög­fræðingur hjá lög­reglunni á Suður­nesjum, segir mikil­vægt að stjórn­völd efni til á­taks til að bregðast við lé­legum árangri í bar­áttunni gegn man­sali. Al­menningur þurfi að vera með­vitaður um að man­sal líðist á Ís­landi.

Greint var frá því í kvöld­fréttum Stöðvar 2 að ís­lensk stjórn­völd hafa verið gagn­rýnd fyrir lé­legan árangur í mansals­málum í nýrri út­tekt Greta, nefndar á vegum Evrópu­ráðsins. Þar er stjórn­völdum sendur tónninn.

„Hún er í rauninni bara raun­sönn miðað við skýrslu Greta,“ segir Alda Hrönn Jóhanns­dóttir, yfir­lög­fræðingur hjá lög­reglunni á Suður­nesjum. Hún var gestur Erlu Bjargar Gunnars­dóttir í setti í kvöld­fréttum Stöðvar 2.

Hægt að hringja og senda tölvupóst

Alda Hrönn segir til­efni til þess að efna til á­taks til þess að þjálfa alla hlutað­eig­andi í því að sjá þegar um sé að ræða man­sal.

„Al­menningur þarf líka að vera með­vitaður, vegna þess að ef við berum ekki kennsl á man­sal að þá erum við auð­vitað ekki að rann­saka þessi mál,“ segir Alda.

„Í fyrsta lagi er mjög gott að hringja bara í 112 ef við höldum að neyð liggi við. Lög­reglan er líka með net­fang, man­sal@log­reglan.is sem tekur á móti á­bendingum. Ef það er vinnuman­sal þá gera stéttar­fé­lög það líka, þau geta tekið við þessum á­bendingum og komið á­leiðis til lög­reglu.“

Alda segir stéttar­fé­lögin hafa verið dug­leg að senda á­bendingar um mögu­legt man­sal. Flestar til­kynningar koma þaðan.

„Vegna þess að stéttar­fé­lögin hafa verið mjög iðin við að kynna sér mála­flokkinn og efnt til svona á­taks í að koma á þessari þekkingu hjá öllum þeirra full­trúum sem fara út á vett­vang.“

Snýst um að forgangsraða

Fram kemur í kvöld­fréttum að þó að lög­reglan hafi rann­sakað 71 mál síðustu ár hafi að­eins verið á­kært í einu og sak­borningur verið sýknaður. Bjarkar­hlíð, sem er heimili fyrir þol­endur of­beldis, hefur fengið 25 til­kynningar um man­sal á síðustu tveimur árum en til­fellin eru þó talin mun fleiri.

Segjum að það yrði mikið átak og þið fenguð miklu fleiri til­kynningar til lög­reglu, hafið þið mann­afla til þess að bregðast við?

„Þetta snýst auð­vitað allt um for­gangs­röðun og það er alveg ljóst að við þurfum að for­gangs­raða þessum mála­flokki betur, frá stjórn­erfinu alveg efst og niður. Það þarf meira fjár­magn eins og Greta nefnir í skýrslunni en það þarf líka að setja af stað verk­ferla,“ segir Alda.

„Það þarf ein­hver einn að geta borið kennsl á þol­endur mansals og geta skil­greint það, vegna þess að þau eiga gríðar­lega ríkan rétt á að fá að­stoð frá okkur sem sam­fé­lagi og við þurfum fyrst að trúa því að hér líðist man­sal. Því miður þá er það stað­reyndin, við höfum verið með mál og takast á við það saman, af því að ekkert okkar vill að man­sal líðist á Ís­landi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×