En hver er hugsunin á bak við ókeypis jólahlaðborð og hvað er þetta að gefa félögum í klúbbnum?
„Hugsunin er að sjálfsögðu að láta gott af sér leiða. Það eru því miður ekki allir sem hafa ráð á að sækja jólahlaðborð en þau eru hins vegar skemmtileg í alla staði. Okkur fannst tilvalið að fara af stað með þennan viðburð og sjá hvernig þetta færi fram og hvort við réðum við þetta. En nú er þetta búið að vera í um 10 ár, fyrir utan Covid árin tvö og gefur það okkur óendanlega mikið í hvert sinn. Þetta hefur aukið samstöðuna í klúbbnum, virkjað félagana og við finnum að við höfum látið gott af okkur leiða þegar við lítum yfir salinn og sjáum bros á hverju andliti,“ segir Ómar Bragi.

Dekkað upp fyrir 600 mannsj
Rótarýfélagarnir hefja alltaf undirbúning jólahlaðborðsins á haustdögum og fá stuðning frá nokkrum góðum fyrirtækjum sem leggja klúbbnum lið og létta undir með honum og aðstoða við að undirbúa matargerðina. Borðin eru dekkuð upp fyrir um 600 manns í íþróttahúsinu þar sem jólastemningin er í algleymingi. „Þetta er alvöru jólahlaðborð, boðið upp á síld og rúgbrauð, rækjurétt, hangikjöt og laufabrauð, hamborgarhrygg, sósur og jafning með kartöflum og öllu því meðlæti sem fylgir svona veislu. Svo er að sjálfsögðu jóladrykkir, kaffi og konfekt Við erum svo heppin að í ár mætir kvennakórinn Sóldísirnar á jólahlaðborðið og syngur inn jólin fyrir gesti okkar,“ segir Ómar Bragi og bætti við að lokum. „Við Rótarýfélagar hlökkum til laugardagsins og vonum að við sjáum sem flesta gesti frá 12:00 til 14:00, það er pláss fyrir alla, unga sem aldna. Allir eru hjartanlega velkomnir.“

