Erlent

Banda­ríkin stöðvuðu fulla aðild Palestínu­manna að SÞ

Kjartan Kjartansson skrifar
Robert Wood, fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráðinu, réttir upp hönd til þess að beita neitunarvaldi um umsókn Palestínumanna um fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum.
Robert Wood, fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráðinu, réttir upp hönd til þess að beita neitunarvaldi um umsókn Palestínumanna um fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum. AP/Yuki Iwamura

Ályktun um fulla aðild Palestínumanna að Sameinuðu þjóðanna var felld í öryggisráðinu í kvöld þegar Bandaríkin beittu neitunarvaldi sínu. Fulltrúi Bandaríkjanna sagði það ekki til marks um andstöðu þeirra við sjálfstætt ríki Palestínumanna.

Palestínumenn endurnýjuðu tilraunir sínar til þess að fá fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum í apríl, studdir 140 ríkjum sem viðurkenna Palestínu sem fullvalda ríki. Þeir hafa nú stöðu áheyrnarríkis og aðild að stofnunum Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðastofnunum eins og Alþjóðasakamáladómstólnum.

Tillagan sem lá fyrir öryggisráðinu í kvöld var sú fáorðasta í sögu ráðsins. Hún gerði ráð fyrir að umsókn Palestínumanna um fulla aðild yrði vísað til allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þar sem hún hefði vafalaust verið samþykkt. Tólf þjóðir greiddu atkvæði með tillögunni en tvö sátu hjá. Aðeins Bandaríkin greiddu atkvæði á móti en þau hafa neitunarvald í ráðinu.

Robert Wood, aðstoðarsendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði á fundinum að atkvæði sitt endurspeglaði ekki andstöðu Bandaríkjastjórnar við að Palestínumenn fengju sitt eigið ríkið. Það gæti hins vegar aðeins orðið að veruleika með beinum viðræðum Ísraela og Palestínumanna. 

Sagði Wood ýmsum spurningum ósvarað um hvort að Palestína geti talist ríki. Vísaði hann meðal annars til þess að Hamas-samtökin réðu enn ríkjum á Gasaströndinni. Bandaríkjastjórn væri enn ákveðin í að liðka fyrir tveggja ríkja lausn í deilu Ísraela og Palestínumanna.

Royad Mansour, áheyrnarfulltrúi Palestínumanna, þakkaði ríkjunum sem studdu umsóknina. Þeir væru ekki af baki dottnir þrátt fyrir synjunina.

„Við hættum ekki tilraunum okkar. Palestínuríki er óumflýjanlegt. Það er raunverulegt. Hugsanlega finnst þeim það fjarlægt en við sjáum það í nánd og við höfum trú,“ sagði Mansour.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×