Skoðun

Án varna, ekkert frelsi

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Í vikunni samþykkti Alþingi þingsályktun um stuðning Íslands við Úkraínu til næstu fimm ára. Málið hafði góðan stuðning í þinginu eins og önnur mál sem við höfum afgreitt til stuðnings Úkraínu. Með tillögunni leggja íslensk stjórnvöld áherslu á ákveðna þætti stuðnings við Úkraínu, m.a. á öflugt samstarf og samskipti. Ég hef upplifað það frá fyrstu hendi hversu miklu máli öflugt samstarf og samskipti við landið skipta. Sú áhersla er mikilvæg til að styðja við sjálfsmynd Úkraínu og sjálfstæði og fullveldi landsins.

Friðaráætlun forseta Úkraínu er gríðarlega mikilvæg, ekki síður en áhersla hans á varnir. Það virðist stundum gleymast í yfirlætislegri umræðu um átök í öðrum löndum að enginn þráir frið meira en íbúar í stríði. Enginn þráir frið í Úkraínu heitar en Úkraínumenn sjálfir.

Það var því athyglisvert að hlusta á málflutning pírata um tillöguna sem þeir reyndar studdu þó í heild. Píratar gera athugasemd við að Íslendingar leggi til fjármuni með nágranna- og vinaþjóðum til kaupa á skotfærum og lofvarnarkerfum sem Úkraínumenn leggja höfuðáherslu á. Píratar leggja áherslu á að við komum að mannúðaraðstoð og borgaralegri þjálfun, t.a.m. sprengjuleit, en tökum ekki þátt í sameiginlegu átaki Evrópuþjóða til að bregðast við sáru ákalli Úkraínumanna. Um þetta vísa píratar m.a. til ályktunar Samtaka hernaðarandstæðinga þar sem samtökin segja aðstoð Íslands vera „kúvendingu“ á afstöðu Íslands um að vinna að friði.

Innrás Rússlands í Úkraínu er alvarlegasta ógn við öryggi Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Kúvendingin sem hefur orðið er allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu. Stríð er nú háð í okkar heimshluta með miklum yfirlýsingum Rússa um frekari landvinninga í Evrópu. - Stríð þar sem Rússland hefur þverbrotið alþjóðalög og lætur sér fátt um finnast um viðbrögð alþjóðasamfélagsins.

Nágranna- og vinaþjóðir okkar eru mjög meðvitaðar um alvarlega stöðu í okkar heimsálfu og hversu mjög hún ógnar friðinum í álfunni. Það væri óskandi að þeir sem vilja loka augunum fyrir ákalli Úkraínumanna um varnir gegn grimmilegri árás svo þeir geti öðlast hlutdeild í friðnum opnuðu augun og settu sig í spor Úkraínumanna. Borgaraleg þjálfun og hjúkrun særðra er auðvitað mikilvæg. En vonandi verðum við aldrei í þeirri stöðu að sitja varnarlaus undir kúlu- og sprengjuregni og fá þau viðbrögð vinaþjóða að þær takmarki aðstoðina við það.

Ákveðnir hópar í Þýskalandi hvöttu til að Úkraínumenn fengju ekki varnarvopn í upphafi innrásar. „Án vopna, ekkert stríð“. Það eru að vísu orð að sönnu. Jafn sönn og að án varna verðum við ofurseld ofbeldisöflunum. Ég segi, byggt á reynslunni: „Án varna, ekkert frelsi“.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×