Ályktunin er send út vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í framkvæmdum í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði og vísað í frétt Stöðvar 2 í fyrradag um að öll stór verkútboð hafi legið í salti hjá Vegagerðinni frá því síðastliðið haust og að horfur séu á að engar nýjar stórframkvæmdir hefjist á þessu ári. Vestfjarðastofa er sameiginleg hagsmunastofnun Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og Fjórðungssambands Vestfirðinga.
„Minnt er á að í samþykkt Alþingis um breytingar á samgönguáætlun 2021 átti framkvæmdum að ljúka í Gufudalssveit nú á árinu 2024 og á Dynjandisheiði 2025. Endurskoða varð þessi áform með vísan til hækkunar kostnaðar og aukinna öryggiskrafna og í framhaldinu voru sett fram loforð um að um samhangandi framkvæmdir yrði að ræða og við það hefur verið staðið þar til á þessu ári. Ljóst er því að óbreyttu, munu gríðarlegar framkvæmdir síðustu ára ekki koma til með að nýtast þar sem enn eru erfiðir kaflar sem tefja og hamla för,” segja Vestfirðingarnir.
„Enn lengist því í að stjórnvöld greiði niður hina háu viðhaldsskuld, sem safnast hefur upp gegnum áratugi og leitt til þess að vestfirsk samfélög hafa mátt sitja eftir við uppbyggingu sjálfsagðra innviða. Þessi staða hefur leitt til mikils ójafnræðis á stöðu innviða og þjónustu á Vestfjörðum miðað við aðra landshluta og slakari samkeppnisstöðu atvinnulífs. Staða samfélaganna á sunnanverðum Vestfjörðum er þar lökust og þar eru einu samfélögin á landinu með þéttbýliskjarna yfir 1000 íbúa sem þurfa að búa við að ekki er hægt að aka á milli landshluta á bundnu slitlagi.
Það vekur furðu að nú stefni í að fleiri ár muni líða þar sem verður ekið með þúsundir tonna af sjávarfangi yfir hinn 70 ára gamla, ónýta veg um Ódrjúgsháls. Ljóst er öllum að þessi staða er með öllu óásættanleg.
Stjórn Vestfjarðastofu beinir því til Alþingis, ríkisstjórnarinnar og Vegagerðarinnar að tryggja að unnið verði eftir gildandi samgönguáætlun og verkefni í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði verði boðin út strax í sumar,” segir í ályktuninni.
Hér fréttin sem ályktunin vísar í: