Skoðun

Fimm­tán ár – nýtum tímann betur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar

Tíminn er dýrmætur. Líka í pólitík.

Í vikunni voru liðin fimmtán ár frá því að Össur Skarphéðinsson þáverandi utanríkisráðherra lagði formlega fram umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Samstarfsmenn hans í ríkisstjórn komu í veg fyrir að honum tækist að ljúka viðræðunum.

Ég rifja þetta upp nú því það blasir við flestum að við höfum ekki nýtt tímann vel.

Aðild að Evrópusambandinu er ekki sjálfstætt afmarkað markmið. Hún er á hinn bóginn verkfæri, sem auðveldar okkur að ná markmiðum á fjölmörgum sviðum og hjálpar til við að leysa vanda heimila og fyrirtækja. Svo ekki sé minnst á mikilvægi sterkrar og samhentrar Evrópu þegar frelsi, lýðræði og mannréttindi eiga undir högg að sækja í harðnandi heimi. En líka þegar kemur að hinu stóra samhengi að styrkja þjóðaröryggi landsins.

Milljón dollara spurning í næstu kosningum

Hefðum við lokið viðræðunum og þjóðin samþykkt aðild væru skuldug heimili ekki í þeirri kreppu ofurvaxta, sem við heyrum daglega af. Kreppu sem er að keyra venjuleg heimili fjölskyldufólks í kaf en er reglubundin birtingarmynd pólitískra ákvarðana.

Stjórnarflokkarnir hefðu heldur ekki þurft að kasta ryki í augu bænda með því að banna samkeppni, svo nýleg og sjúskuð dæmi frá ríkisstjórnarheimilinu séu nefnd. Allt vegna þess að stjórnarflokkarnir treysta sér ekki til að taka á raunverulegum vanda bænda og leysa þá úr spennitreyju vaxtaokurs og yfirgengilegs fjármagnskostnaðar. Og þannig mætti lengi telja.

Færeyska krónan er fasttengd við Evru. Fyrir skömmu skrifaði Óli Anton Bieltvedt grein um þýska könnun á lífskjörum í fjölmörgum ríkjum. Þar stóðu Færeyingar mun framar en við.

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna spyr í viðtali við Heimildina: „Af hverju eru vextir viðvarandi háir á Íslandi; miklu hærri en í nágrannalöndunum?“ Hann segir að þetta sé milljón dollara spurningin, sem verði stóra málið fyrir næstu kosningar.

Brexit jók skrifræðið

Brexit snerist í höndum þeirra sem sannfærðu nauman meirihluta Breta að taka þá ákvörðun. Nú eru átta ár liðin. Niðurstaðan er skýr. Flestir Bretar eru þeirrar skoðunar að efnahagur landsins hafi versnað við útgönguna og skrifræði aukist.

Frelsi þeirra sem starfa meðal annars í skapandi greinum hefur þrengst. Í viðtali við RÚV síðasta miðvikudag segir íslensk kona, Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths, sem búið hefur í Bretlandi í þrjátíu ár:

„Þær eru alveg ótvíræðar þær breytingar sem hafa orðið, hvað varðar alla stjórnsýslu. Ég sem tónlistamaður þarf að hafa skírteini um það að ég greiði skatta í þessu landi. Og ferli sem tók fjórar til fimm vikur tekur núna upp í níu mánuði.“

Bresku sjómennirnir sem trúðu fagurgalanum um að aðstæður þeirra myndu batna utan Evrópusambandsins telja sig nú hafa verið blekkta.

Ákall forystumanna neytenda og launafólks

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna lýsir þeirri skoðun sinni í fyrrnefndu viðtali að stjórnvöld verði að láta gera óháða úttekt á krónunni.

Fyrir tæpu ári hafði Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins forystu um að óska eftir því við Samtök atvinnulífsins að slík greining yrði gerð til að auðvelda umræðuna. Atvinnulífið með SA í broddi fylkingar hafnaði beiðninni.

Forseti ASÍ, Finnbjörn A. Hermannsson hefur síðan ítrekað þessa ósk. Ríkisstjórnin tók hins vegar sömu afstöðu og SA þegar ég spurðist fyrir um afstöðu hennar á Alþingi.

Sú ákvörðun Samfylkingarinnar að setja Evrópumálin á hilluna hefur líka veikt jákvæð viðbrögð við þessari ósk forystumanna neytenda og launafólks. En Viðreisn mun áfram gæta þeirra almannahagsmuna, sem þessir forystumenn tala fyrir og halda málinu á dagskrá. Annars líða fleiri ár og lítið breytist. Nema stöku andlit í nýjum ráðherrastól. Í því felast hins vegar litlir almannahagsmunir.

Þjóðaratkvæði fyrir kosningar

Flestir eru þeirrar skoðunar að ekki sé ráðlegt að beita þessu verkfæri í almanna þágu, sem felst í fullri aðild að Evrópusambandinu, nema kjósendur ákveði það sjálfir í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Því er Viðreisn sammála og vill að þjóðin fái tækifæri til að ákveða næsta skref í þessu mikilvæga máli. Ef þjóðin segir já verði endanlega niðurstaða samningaviðræðna síðan borin undir þjóðina. Við slíka tvöfalda atkvæðagreiðslu á enginn að vera hræddur.

Nýleg skoðanakönnun sýnir að það er vilji tveggja þriðju hluta þjóðarinnar að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.

En nú reynir enn og aftur á að pólitíkin nýti tíma sinn vel.

Næstu ríkisstjórnar bíður mikið starf við viðreisn ríkisfjármála og velferðarmála. Til þess að tími nýrrar ríkisstjórnar nýtist sem best er afar æskilegt að hún viti frá fyrsta degi hvort þjóðin vilji að hún beiti þessu verkfæri. Verkfæri sem getur auðveldað okkur að ná svo mörgum markmiðum sem verða á dagskrá kosninganna. Eins og að ná niður tugi milljarða vaxtakostnaði ríkisins sem betur færu í velferð, menntun, inniviði eða niðurgreiðslu skulda.

Með þetta í huga er það mín skoðun að þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðnanna eigi að fara fram fyrir næstu kosningar. Alla vega ekki síðar en samhliða þeim.

Í þágu allra

Í slíkri atkvæðagreiðslu hafa fylgjendur og andstæðingar fullrar aðildar jafna stöðu. Það ætti því að vera jafnt keppikefli fyrir fulltrúa beggja á Alþingi að sameinast um að fá botn í málið áður en næsta ríkisstjórn hefur störf.

Enginn veit hvernig næsta ríkisstjórn verður samsett. En stjórnarmyndun getur orðið flókin. Það er því í þágu allra að fá svar þjóðarinnar við þessari spurningu fyrst. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ný nálgun og einhver áskorun fyrir stjórnmálin. En þannig nýtum við tímann best. Fyrir þjóðina.

Höfundur er formaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×