Í Bjarkarás 8 býr Sigurður Hannesson harmoníkuleikari með konu sinni, Guðrúnu Böðvarsdóttir, sem er alltaf kölluð Rúna. Þau buðu krökkum í leikskólanum Ásum, sem er Hjallastefnuleikskóli rétt við heimili þeirra að koma í heimsókn til að syngja nokkur lög með Sigurði. Skemmtilegt og flott framtak hjá þeim hjónum.
„Mér finnst þetta bara vera hápunktur sumarsins að fá krakkana hingað, mér finnst það mjög, mjög gott en við erum búin að bíða svo lengi eftir góðu veðri en þetta hafðist nú fyrir rest. Þau tóku bara vel undir,” segir Sigurður eldhress.

Sigurður segist hafa spilað á harmonikku frá 15 ára aldri en í dag er hann mest að spila á opnum húsum fyrir eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu og þrjá mánuði yfir veturinn spilar hann á Kanarí.
En hvað vill Sigurður segja um harmonikkuna sem hljóðfæri?
„Hún er óendanlega skemmtilegt verkfæri, alveg óendanlegt verkfæri.”
Og leikskólakrakkarnir fengu líka að skoða garðinn hjá Sigurður og Rúnu og þar vöktu álfarnir mesta athygli.

Og starfsfólk leikskólans var ánægt með þetta stórkostlega framtak Sigurðar og Rúnu.
„Heyrðu þetta er bara mjög gaman til að brjóta upp daginn. Og börnin dýrka þetta og við erum bara mjög ánægð með þetta,” segja þau Fanný Ólafsdóttir og Víkingur Örvar Ólafsson.
Og það er við hæfi að fá Sigurður til að spila brot af uppáhaldslaginu sínu í lokinn á sama tíma og Ljósanótt stendur yfir en það er lagið “Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn”.
