Frá þessu var greint í kynningu Guðlaugs Þór Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Árna Magnússonar, forstjóra Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) í dag.
Ráðist var í lághitaleit á Reykjanesi sem neyðarviðbragð eftir að heitavatnslaust varð á Suðurnesjum þegar Njarðvíkurlögn frá Svartsengi fór í sundur þegar hraun rann yfir hana frá eldgosi í byrjun febrúar. Hröð handtök og viðbrögð eru sögð hafa forðað því að stórkostlegar skemmdir hefðu orðið á innviðum en mikið frost var þegar lögnin rofnaði.
Markmiðið var að finna lághitavatn sem væri hægt að nota til hitaveitu í neyð. Hefðbundin lághitaleit af þessu tagi er sögð taka fleiri mánuði og jafnvel ár í undirbúningi og framkvæmd.
Ein holan gæti annað fjórðungi heitavatnsþarfar
Þrjár djúpar rannsóknarholur voru boraðar við heitavatnsleitina en staðsetning þeirra var valin út frá jarðfræðilegum vísbendingum en einnig með nálægð við innviði og náttúruvá í huga. Holurnar reyndust allar nýtanlegar á sinn hátt, ýmist til húshitunar eða í ýmis konar atvinnustarfsemi.
Í kynningunni kom fram að með þeim mætti halda Reykjanesbæ, Vogum og Suðurnesjabæ frostfríum og líklega anna eðlilegri lágmarksnotkun til skemmri tíma.
Romshvalsnes á Miðnesheiði, sem er kennt við Rockville frá tíð Bandaríkjahers, er sérstaklega sagt efnilegt svæði til frekari borana. Líklegt sé að vinnsla þaðan geti orðið mikilvægur þáttur í orkuöflun í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ í náinni framtíð. Áætlað er að holan gæti mögulega útvegað um fjórðung þess heita vatns sem þarf á Suðurnesjum.
Frekari mælingar á holunum eru næstar á dagskrá, útfærsla á dælum, varmaskiptum og lögnum svo að þær verði tiltækar til vinnslu. Þá kom fram að hefja þyrfti rannsóknir til þess að tryggja að Vogar hefðu aðgang að heitu vatni til framtíðar, færi svo að það fengist ekki lengur frá Svartsengi.