Skoðun

Er krónan að valda á­tökum á milli kyn­slóða?

Guðmundur Ragnarsson skrifar

Eins og hlutirnir hafa verið að þróast í samfélaginu undanfarin ár með auknum kröfum á stjórnvöld og sveitarfélög er að mínu viti að byggjast upp mikil spenna á milli kynslóða. Þessi spenna lýsir sér þannig að unga fólkið sem er að koma sér af stað í samfélaginu með því að stofna fjölskyldur kallar eftir meiri og meiri stuðningi opinberra aðila við að koma sér þaki yfir höfuðið og eignast börn. Nýjasta krafan sem fékkst fram eru fríar máltíðir í skólum óháð efnahag foreldra.

Sá stóri hópur sem er kominn á eftirlaun er líka að verða háværari um það hvernig komið er fram við þá sem lokið hafa ævistarfinu með allskonar skerðingum og sköttum og vilja róttækar breytingar á því fyrirkomulagi. Ættu aldraðir sem eru í dagvistun ekki að fá fríar máltíðir eins og skólafólkið? Því margir aldraðir hafa ekki mikið á milli handanna. Ýmis hlunnindi sem aldraðir hafa haft er er verið að taka af, í sífellt meiri þörf við að stoppa í rekstrarhalla sveitarfélaga. Þar sem farið hefur verið í glórulaus gæluverkefni og tekjur vantar á móti. Ríkið er ekkert betra og nú er komið fram í fjárlögum ríkisstjórnarinnar fyrir 2025 að skerða örorkuframlag til lífeyrissjóða úr 7 milljörðum í 2,5 og taka það síðan af 2026. Þessi aðför að eftirlaunum láglaunafólks er með því siðlausasta sem ég hef upplifað lengi. Eru þetta breiðu bökin í samfélaginu? Þessar endalausu aðfarir að kjörum eldri borgara til að fjármagna önnur velferðarverkefni verður að linna. Fjármögnunina á þeim verður að sækja á hin réttu breiðubök, sem alltaf virðist vera hlíft. 

Ef horft er á rekstur ríkis og sveitarfélaga þá er eitthvað 100% sem er til skiptana sem báðir þessir hópar gera kröfu um að fá meira af. Unga fólkið hefur haft vinninginn vegna þess að verkalýðshreyfingin hefur sett hagsmuni þeirra á oddinn við gerð kjarasamninga með sífellt háværari kröfur um stuðning vegna íbúðakaupa, húsaleigustuðning, hærra fæðingarorlof og hærri vaxta- og barnabætur. Eldriborgarar sem borga ekki lengur félagsgjöld í stéttarfélög hefur verkalýðshreyfingin engan áhuga á að berjast fyrir. Við það að einhver fái meira af kökunni sem er til skipta þá er minna eftir fyrir hina sem eftir eru. Gleymum samt ekki að flest öll verðum við gömul.

Er krónan örlagavaldur í þessu eins og öllu öðru?

Getur verið að örgjaldmiðilinn krónan sé stór gerandi í þessari stöðu sem er og hefur verið að að þróast og að við neitum að horfast í augu við þann raunveruleika. Mín skoðun er að svo sé. Það er orðið og hefur alltaf verið mjög erfitt fyrir venjulegt launafólk að kaupa sér húsnæði vegna þess að reglulega fær það hækkanir á krónuvextina af lánunum sínum sem engin eða fáir ráða við þegar það tímabil stendur yfir í hagkerfinu. Hinsvegar held ég að staðan hafi aldrei verið eins slæm eins og hún er núna enda kostnaður af krónunni að sliga samfélagið meira og meira. Síðan er það ekki til að bæta ástandið að fasteignamarkaðurinn er í heimatilbúnu rugli vegna rangra ákvarðana í lóðaúthlutunum.

Fórna sparnaðinum til að hjálpa

Eftirlaunaþegum fjölgar hratt og þeir eru komnir yfir 40 þúsund og margir hverjir hafa ekki mikið á milli handanna þó vissulega eru aðrir sem hafa það mjög gott. Lífaldur okkar er að hækka og margir vilja vinna lengur en er þá refsað með skerðingum og sköttum. Þessi hópur mun bara verða áhrifameiri ef honum tekst að sameina sig og standa fast á sínum kröfum. Þessi hópur greiðir skatta af öllum sinum lífeyrisgreiðslum og eru fullir þátttakendur í samfélaginu en ekki þiggjendur, við megum ekki gleyma því. Þessum hópi finnst hann eiga eitthvað betra skilið eftir ævistarfið annað en að verða fyrir blóðugum skerðingum á framfærslu sína til að spara fyrir ríkissjóð og skattaþrælar af eðlilegum sparnaði. Síðustu ár hefur það verið að færast í vöxt að foreldrar eru að fórna sparnaði sínum við að hjálpa börnunum sínum við að kaupa þak yfir höfuðið. Það er því eðlilegt að þessum hópi finnist allar skerðingar mjög ósanngjarnar þegar sparnaðurinn er farinn í annað en til stóð.

Lífeyrisjóðum fórnað til að halda uppi gengi krónunnar

Okkar gæfa var að lífeyriskerfið okkar er sjóðasöfnunarkerfi en ekki gegnumstreymiskerfi. Til að geta ávaxtað það sem best og láta sjóðina ekki búa til skekkju inn í hagkerfið er krónan enn og aftur að skaða okkur. Lífeyriskerfið er orðið alltof stórt fyrir íslenskt örkrónuhagkerfi og það er að verða nauðsynlegt að við förum með allt að 80% af sjóðunum í erlendar fjárfestingar eins og til dæmis Hollendingar. Danir eru með um 75% til að fá sem besta ávöxtun og heilbrigt hagkerfi. (Norðmenn eru með olíusjóðinn allan fyrir utan norskt hagkerfi) Vandamál okkar er að ef það yrði leyft þá myndi krónan gefa eftir og allt hækka og verðbólga aukast. Vextir af lánum færu upp og gamla hringekjan virkjaðist í hækkun verðlags og kaupgjalds. Vandamálin sem eru að skapast vegna krónunnar eru endalaus, alveg sama hvar við berum niður og skoðum afmarkaða þætti samfélagsins.

Báðar kynslóðir að borga blóðugan krónuskatt

Þó aðeins sé verið að skoða nokkra þætti er varða þær háværu kröfur sem ólíkir hópar í samfélaginu kalla eftir á stjórnvöld og sveitafélög þá munu þær kröfur aðeins aukast inn í framtíðina. Krónan er að skapa vandamál alls staðar hvort sem það er í vaxtamálum, fákeppni og gjaldeyrishöftum sem fáir talar um. Af hverju þarf gjaldmiðill sem sumir kalla heilbrigðan gjaldmiðil að þurfa að vera með gjaldeyrishöft sem hindrar lífeyrissjóðina okkar að ná sem bestri ávöxtun fyrir komandi kynslóðir. Af hverju þarf sparnaður okkar að vera notaður til að halda krónunni á þeim stað sem hún er svo hún falli ekki og fái raunvirði sitt?

Hvað eru gjaldeyrishöftin að kosta okkur?

Þetta og svo margt annað er að kosta okkur ótrúlega fjármuni. Allt of stór hluti af sköttunum okkar fer í að borga vaxtamun hjá ríki og sveitafélögum á milli krónu og evru sem okkur sárvantar í heilbrigðis- félagsmála- og menntakerfin. Almenningur og minni fyrirtæki eru að borga okurvexti af lánunum sínum og fákeppnin hækkar allan framfærslukostnað sem við verðum að lækka. Sparnaði okkar í lífeyrissjóðunum er fórnað til að geta haldið í krónuna. Hvenær verður nóg nóg og við segjum hingað og ekki lengra við að henda öllum þessum óheyrilegu fjármunum á fórnaraltari Krónunnar?

Vitræn umræða um krónuna

Við verðum ná fram vitrænni umræðu um krónuna og hvað hún kostar okkur. Hanna Katrín Friðriksdóttir setti fram í grein Framfarir eða fjármálablinda? að heildarkostnaður krónunnar umfram evru á hverju ári sé um 500 milljarðar króna, sem er um 12% af landsframleiðslu og um 1,4 milljarður á dag. Þvílíkt bruðl er fráleitt ástand, sem verður að laga.

Við höfum möguleika á að losna undan böli krónunnar með því að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið og sjá hvað samningurinn muni færa okkur. Verði niðurstaðan sú að við samþykkjum aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu getum við tekið upp sterkan og stöðugan gjaldmiðil. Heildarávinningur samfélagsins gæti legið í hundruðum milljarða á ári sem okkur er farið að sárvanta til að reka þetta samfélag. Örva og byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf fyrir okkar vel menntaða unga fólk með fyrirtækum sem borga góð laun.

Ég fullyrði að staða okkar mun verða talsvert betri en hún er í dag ef við verðum aðilar að Evrópusambandinu og tökum upp alvöru gjaldmiðil.

Höfundur er varaþingmaður Viðreisnar og fyrrverandi formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna og stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum Gildi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×