Í Kompás sem sýndur var í vikunni var fjallað um sprengingu í notkun þyngdarstjórnunarlyfja á borð við Ozempic og Wegovy.
Lyfin eru öflugt tól í baráttunni við offitu en efnaskiptaaðgerðirnar hafa enn mesta verkun og geta lagað ýmsa kvilla á borð við sykursýki, háþrýsting og kæfisvefn.
„Síðan er hægt að horfa í aðra þætti eins og krabbamein. Það sem mjög margir vita ekki eða er lítið talað um er að yfirþyngd er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir margar tegundir krabbameina. Þannig eru konur sem eru yfir komnar yfir 30 í þyngdarstuðli, þær eru í tvöfaldri hættu á að fá brjóstakrabbamein miðað við þær sem eru í kjörþyngd. Og þessar aðgerðir geta lækkað þessa tíðni um helming aftur,“ segir Aðalsteinn Arnarson, skurðlæknir á Klíníkinni.
Hrein pólitík
Á sama tíma og heilbrigðisyfirvöld segja nauðsynlegt að bregðast við offituvandanum eru efnaskiptaaðgerðir á Klíníkinni ekki niðurgreiddar. Og margir ferðast til útlanda til að leggjast undir hnífinn, sem er oft ódýrara.
„Þetta er nú bara hrein pólitík. Sú afstaða hefur ekki breyst að þessar aðgerðir eru ekki niðurgreiddar þegar þær eru gerðar úti í bæ eins og það er kallað. Það er hægt að fá niðurgreiðslu hjá sjúkratryggingum ef þú velur að fara í gegnum Landspítalann eða erlendis en þessi vinna eða pólitíska samstaða um að taka greiðsluþátttökuna hér innanlands hefur ekki skilað sér.“

Árið 2021 fóru 926 í efnaskiptaaðgerðir hjá Klíníkinni og hefur þeim fækkað milli ára. Aðalsteinn segir fækkunina megi að hluta til rekja til þess að þyngdarstjórnunarlyfin hafi að einhverju leyti tekið við af aðgerðunum en efnahagsástandið spili einnig þátt í fækkuninni.
„Við vitum að aðgerðirnar eru þjóðhagslega hagkvæmar, það tekur ekki mörg ár þar til fólk er búið að borga aðgerðina upp ef við getum orðað það þannig… með minnkandi sjúkdómabyrgði, lyfjanotkun og slíku. Þannig kærkomið að fá betri aðkomu ríkis eða betri greiðsluþátttöku. En á sama tíma er mikilvægt að hafa góðan ramma utan um hverjir hafa gagn af slíkri aðgerð og það suma á við um lyfin.“