Í vikunni hefur verið fjallað um stærðar vöruhús sem reist hefur verið steinsnar frá fjölbýlishúsi í Breiðholti. Íbúar í húsinu eru afar ósáttir með nýbygginguna og nýja útsýnið sem getur seint talist eftirsóknarvert. Borgin hefur verið gagnrýnd fyrir að gefa leyfi fyrir uppbyggingunni en borgarstjóri hefur sagst vilja hefja samtal við uppbyggingaraðila um að lækka húsið.
Standa þurfi vörð um íbúabyggðina
Líf segir ekkert annað koma til greina en að finna starfseminni sem á að fara fram í vöruhúsinu nýjan stað og að borgin þurfi að axla ábyrgð á mistökunum og vinda ofan af þeim.
„Ég held að borgin þurfi að axla ábyrgð og leita einhverra leiða sem allir geta sætt sig við,“ segir Líf.
„Í stað þess að vera að klóra í bakkann og vera með miðjumoð eins og borgarstjóri sem var með mjög Framsóknarlegt svar: Við ætlum að athuga hvort við getum lækkað þetta um einhverjar hæðir. Þetta snýst ekki um það,“ segir hún.
Líf segist ekki vilja baka uppbyggingaraðilanum neitt tjón og að hægt sé að koma til móts við íbúa með því að flytja starfsemina.
„Við þurfum að standa vörð um íbúabyggðina og hverfisbraginn. Það er að byggjast upp lítið hverfi. Það vantar einhverja atvinnustarfsemi en ekki starfsemi sem ætti að vera á skilgreindri atvinnulóð,“ segir Líf.
Borgin taki á sig tapið
Hún segir ábyrgðina borgarinnar.
„Ég held að okkur sé best að vera ekki að klóra í bakkann og viðurkenna að þetta hafi verið klúður og leysa það. Þá finnst mér allt í lagi að borgin taki á sig tapið,“ segir Líf.
„Mér finnst líka leiðinlegt að leita alltaf að sökudólgum en við verðum að fara í saumana á hvernig þetta gat farið fram hjá öllum þangað til að húsið var risið. Við þurfum líka að læra af þessu og gera þetta betur framvegis,“ segir hún.