Leiðtogar nítján Evrópuríkja funduðu í Lundúnum í gær þar sem sammælst var um að auka við beinan hernaðarstuðning við Úkraínu og beita Rússland auknum efnahagsþvingunum. Fundurinn var hálfgert svar við fundi Vólódímírs Selenskí Úkraínuforseta með Donald Trump Bandaríkjaforseta og JD Vance varaforseta á föstudag, þar sem upp úr sauð.
Spennan alþjóðlega hefur aukist mjög síðustu tvær vikur vegna innrásarstríðs Rússa í Úkraínu. Sér í lagi vegna friðarviðræðna Bandaríkjanna og Rússa, án aðkomu Evrópu, og stóryrða Trumps í garð Selenskí.
„Það er ljóst að þessi staða er að breytast hratt og hún getur haft mikil áhrif. Við þurfum að fylgjast með henni en maður finnur til þess að við eigum ekki beinlínis sæti við borðið,“ segir Dagur B. Eggertsson þingmaður Samfylkingarinnar og formaður Íslandsdeildar NATO.
Mikil óvissa
Varnarsamningurinn við Bandaríkin og aðildin að NATO hafi verið hornsteinar í vörnum Íslands undanfarna áratugi og verði það vonandi áfram. Mikil óvissa hafi hins vegar myndast á síðustu vikum.
„Óvissu um stefnuna, óvissu um hættumatið, óvissu um virðingu við alþjóðastofnanir og að einhverju leyti við alþjóðalög og samskipti ríkja. Við þurfum að horfast í augu við það að við erum smáríki og þess vegna skiptir okkur mjög miklu máli að efna til umræðu og svara því hvar við viljum eiga bandamenn. Hverjir eru að tala fyrir svipuðum áherslum og við? Í mínum huga eru það ríki Evrópu en vonandi líka Bandaríkin þegar til lengri tíma er litið.“
Eitt af því sem er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja aðildarviðræður að ESB fyrir lok kjörtímabils. Dagur segir að setjast þurfi yfir varnar- og öryggismál landsins og efla.
„Ég vil flýta hvoru tveggja: mótun varnarmálastefnunnar og þessu Evrópuferli.“