Innlent

„Stór­tækir í­búðar­eig­endur“ eiga 20 prósent í­búða í borginni

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur tekið saman upplýsingar um nýskráða leigusamninga.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur tekið saman upplýsingar um nýskráða leigusamninga. Vísir/Vilhelm

Fjórtán prósenta aukning er á nýjum leigusamningum á milli ára en rúmlega 4500 nýir samningar hafa verið teknir í gildi á fyrsta ársfjórðungi. Flesta íbúðir í eigu stórtæktra íbúðareigenda á höfuðborgarsvæðinu má finna í Reykjavík en þar er jafnframt lægra leiguverð.

„Alls tóku 4554 nýir leigusamningar gildi í leiguskrá HMS á fyrsta ársfjórðungi 2025 á sama tíma og 2494 féllu úr gildi,“ segir í tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Stórtækir íbúðareigendur eiga rúmlega tuttugu prósent íbúða í Reykjavík sem er það hæsta á höfuðborgarsvæðinu en það hlutfall hefur rúmlega tvöfaldast frá árinu 2005. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eiga þess konar eigendur helst íbúðir í Reykjanesbæ en 26 prósent íbúa þar eru í eigu stórtækra eigenda. 

Stórtækir íbúðareigendur eru þeir lögaðilar sem eiga fleiri en eina íbúð og einstaklingar sem eiga fimm eða fleiri íbúðir. Lögaðilar geta til að mynda verið óhagnaðardrifin leigufélög eða sveitarfélög sem leigja út íbúðir á töluvert lægra verði en almennt ríkir á leigumarkaði.

„Á höfuðborgarsvæðinu, og þá sérstaklega í Reykjavíkurborg, er talsvert hærra hlutfall leiguíbúða á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga og sveitarfélaga en í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins,“ segir í tilkynningunni.

Í Reykjavíkurborg þar sem flestir stórtækir íbúðareigendur eru á höfuðborgarsvæðinu bjóða eigendurnir upp á lægra leiguverð en aðrir þess konar eigendur á höfuðborgarsvæðinu. 

Samkvæmt leiguverðsjá HMS er meðalleiguverð leigusamninga sem nú eru í gildi í Reykjavík rétt rúmar 221 þúsund krónur en um 260 þúsund krónur í Kópavogsbæ. Í Garðabæ er meðalleiguverðið rétt undir 290 þúsund krónum um 245 þúsund krónur í Hafnarfirði. Meðalleiguverð á Íslandi eru 220 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×