Innlent

Kannabishringurinn hafi starfað í nokkur ár

Agnar Már Másson skrifar
Íslenskir ríkisborgarar eru meðal sakborninga en enginn er í varðhaldi. Fjórum sakborningum hefur verið vísað til Albaníu.
Íslenskir ríkisborgarar eru meðal sakborninga en enginn er í varðhaldi. Fjórum sakborningum hefur verið vísað til Albaníu. Vísir/Viktor Freyr

Rannsókn lögreglu á meintum fíkniefnahring á Raufarhöfn og víðar er enn í fullum gangi að sögn rannsóknarlögreglumanns sem sér enn ekki fyrir endann á málinu. Íslenskir ríkisborgarar eru meðal sakborninga en fjórum sakborningum hefur verið vísað til Albaníu. Á sumum stöðum hafi kannabisframleiðsla staðið yfir í nokkur ár.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur síðan í júní farið fyrir umfangsmikilli rannsókn á meintri fíkniefnaframleiðslu sem teygir anga sína þvert yfir landið, alla leið frá Reykjavík til Reykjavíkur.

Skarphéðinn Aðalsteinsson rannsóknarlögreglumaður segir að fíkniefnaframleiðsla virðist hafa staðið yfir í „einhver ár“ á sumum stöðum sem lögregla hefur ráðist í húsleit, sem telja að minnsta kosti sex. 

Enginn sé í varðhaldi lengur en sakborningar séu bæði Íslendingar og útlendingar. Fjórum erlendum sakborningum hefur verið vísað út af Schengen-svæðinu, nánar til tekið til Albaníu.

Málið vakti fyrst athygli 18. júní þegar lögregla réðst í húsleit á Raufarhöfn og í Borgarnesi og lagði þar hald á fíkniefni og búnað til framleiðslu. Íbúar lýstu dularfullri umferð við húsið á Raufarhöfn, bíll hafi af og til sést við húsið á næturnar einu sinni eða tvisvar í mánuði. 

Nokkrum vikum síðar, í byrjun júlí, réðst lögregla í húsleit við Austurbrún í Laugardal í Reykjavík annars vegar og í götu í Kópavogi hins vegar. Þá tilkynnti lögreglan að hún hefði alls framkvæmt sex húsleitir víðs vegar á landinu. 

En þrátt fyrir að fjórir mánuðir séu liðnir frá fyrstu húsleitinni sést enn ekki fyrir endann á rannsókninni.

Skarphéðinn segir að lögregla sé enn að afla sér gagna um málið en hann kveðst ekki geta gefið upp frekari upplýsingar um málið.


Tengdar fréttir

„Mér varð um og ó þegar þeir voru að brjótast inn í húsið“

Íbúar á Raufarhöfn eru furðu lostnir eftir að sérsveit réðst í umfangsmikla húsleit þar á bæ í gær. Húsleitin tengist rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi sem talin er tengjast fíkniefnaframleiðslu. Erlendur maður er sagður búa í húsinu en íbúar segja hann hafa búið þar í skamman tíma.

Fíkniefnarannsókn á Raufarhöfn „langt frá því að vera lokið“

Þrátt fyrir að tæplega tveir mánuðir séu liðnir frá fyrstu húsleit sést enn ekki fyrir endann á fíkniefnamálinu umfangsmikla á Raufarhöfn. Einn útlendingur er í varðhaldi og verður honum að öllum líkindum vísað til Albaníu. Aftur á móti er málið enn ekki komið til ákærusviðs.

Einum vísað til Albaníu en þrír enn í varðhaldi

Einum þeirra sem handteknir voru í tengslum við umfangsmikla rannsókn á fíkniefnaframleiðslu á Norðurlandi og víðar hefur verið vísað úr landi til Albaníu. Þrír eru enn í gæsluvarðhaldi.

Sjá ekki fyrir endann á umfangsmikilli rannsókn á fíkniefnaframleiðslu

Lögreglan á Norðurlandi eystra fer í dag fram á áframhaldandi gæsluvarðhald eins þeirra fimm sem voru handteknir í aðgerðum þeirra þann 18. júní vegna umfangsmikillar rannsóknar á fíkniefnaframleiðslu víða um land. Tveimur þessara fimm hefur verið sleppt úr haldi en einn handtekinn til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×