Viðskipti erlent

Fresta reynsluflugi rafmagnsflugvélar

Kristján Már Unnarsson skrifar
ES 30-rafmagns-tvinnflugvélin er talin geta rutt brautina fyrir sjálfbært og mengunarfrítt farþegaflug.
ES 30-rafmagns-tvinnflugvélin er talin geta rutt brautina fyrir sjálfbært og mengunarfrítt farþegaflug. Heart Aerospace

Sænski flugvélaframleiðandinn Heart Aerospace hefur frestað fyrsta reynsluflugi HX-1 rafmagnsflugvélar sinnar fram á nýtt ár. Fyrirtækið hafði fyrir hálfu ári kynnt að fyrsta flugið yrði á síðasta fjórðungi þessa árs.

HX-1 er heiti á frumeintaki ES 30-rafmagnsflugvélarinnar, helstu vonarstjörnu fluggeirans um sjálfbært og mengunarfrítt atvinnuflug. Flugvélin gæti orðið sú fyrsta í kolefnisfríu áætlunarflugi hérlendis en Icelandair hefur með viljayfirlýsingu skráð sig fyrir fimm eintökum. Norræn flugfélög hafa sérstaklega horft til þessarar flugvélar fyrir flugleiðir innan Skandinavíu.

ES-30 flugvélin í litum Icelandair, sem skrifað hefur sig fyrir fimm eintökum með viljayfirlýsingu.Heart Aerospace

Það þótti álitshnekkir fyrir evrópska nýsköpun og þróunarstarf þegar Heart Aerospace, sem stofnað var í Gautaborg, ákvað síðastliðið vor að flytja höfuðstöðvar sínar til Kaliforníu. Skilaboðin voru túlkuð svo að Bandaríkin væru betri staður til nýsköpunar og tækniþróunar en Evrópa. Jafnframt ákvað fyrirtækið að taka frumeintakið í sundur og flytja það til Plattsburgh-flugvallar í norðanverðu New York-ríki þaðan sem áformað er að fyrstu reynsluflugin verði.

Stærð og flugdrægi vélarinnar gæti hentað íslensku innanlandsflugi.Heart Aerospace

Heart Aerospace hafði stefnt á fyrsta flugið á öðrum fjórðungi þessa árs. Flutningurinn til Bandaríkjanna varð til þess að fyrirtækið endurskoðaði þá tímaáætlun og sagði að flugvélin myndi ekki taka á loft fyrr en undir lok þessa árs. Einnig kom fram að endursmíða þyrfti vængina vegna vandamála tengdum koltrefjaefnum.

Flugfréttasíðan FlightGlobal vekur athygli á því að Anders Forslund, stofnandi og forstjóri Heart Aerospace, greini frá því í nýju kynningarmyndbandi að fyrsta flugtakið verði „snemma á næsta ári“. Engin skýring er gefin á seinkuninni og hefur Heart ekki svarað fyrirspurnum vefmiðilsins.

Heart hyggst smíða annað tilraunaeintak, HX-2, í nýrri verksmiðju sem reisa á í El Segundo í Kaliforníu þar sem ES 30-flugvélin verður þróuð áfram. Hún er hönnuð til að flytja 30 farþega á allt að 200 kílómetrum löngum flugleiðum eingöngu á rafmagni, eða 25 farþega á allt að 800 kílómetra flugleiðum með „hybrid“ eða tvinnorku.

Stór hópur flugfélaga hefur gert skuldbindandi pantanir í 250 eintök og viljayfirlýsingar eru um nærri 200 eintök. Fyrirtækið stefnir að því að flugvélin verði búin að fá vottun og komin í farþegaflug árið 2029.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 daginn sem fyrsta tilraunaeintakið var kynnt í Gautaborg í september í fyrra:


Tengdar fréttir

Yfirgefa Svíþjóð til að hraða þróun rafmagnsflugvélar

Sænski flugvélaframleiðandinn Heart Aerospace hefur ákveðið að flytja höfuðstöðvar sínar frá Gautaborg í Svíþjóð til Los Angeles í Kaliforníu. Fyrirtækið segir að með þessu sé ætlunin að efla þróun ES 30-rafmagnsflugvélarinnar og styðja betur við fyrirhugað tilraunaflug.

Þessi Airbus gæti flogið á íslenskri orku til Oslóar

Ráðamenn Airbus hafa ítrekað þá stefnumörkun sína að koma eitthundrað sæta flugvél knúinni mengunarlausu eldsneyti í arðbært farþegaflug á næsta áratug. Þetta kom fram á árlegum fundi forystumanna Airbus á dögunum.

For­setinn fyrstur far­þega í raf­magns­flug­vél

Blað var brotið í íslenskri flugsögu í gær með fyrsta farþegaflugi rafmagnsflugvélar hér á landi. Forseti Íslands og forsætisráðherra voru fyrstu farþegar vélarinnar og segja flugið marka vatnaskil í vegferð Íslands í átt að hreinni orku í loftsamgöngum. 

Flugvél flýgur í fyrsta sinn í sögunni á íslenskri raforku

Fyrsta rafmagnsflugvél Íslendinga hóf sig til flugs í fyrsta sinn á Íslandi nú síðdegis frá flugvellinum á Hellu á Rangárvöllum. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem flugvél flaug á íslenskri orku en ekki innfluttu jarðefnaeldsneyti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×