Innlent

Allir bílarnir ó­nýtir og mildi að ekki fór verr

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Við Laugabakka í Miðfirði.
Við Laugabakka í Miðfirði. aðsend

Varðstjóri hjá lögreglunni á Norðvesturlandi segir mildi að ekki hafi farið verr þegar að tvö umferðarslys urðu með um fimmtán mínútna millibili á svæðinu í gær. Aksturskilyrði versnuðu mjög skyndilega. Vegurinn hafði ekki verið hálkuvarinn.

Hópslysaáætlun var virkjuð eftir að tvö umferðarslys urðu upp úr klukkan fjögur í gær á Norðvesturlandi, við Blönduós annars vegar og í Miðfirði hins vegar. Pallbíll og jepplingur skullu saman á þjóðveginum í grennd við Laugarbakka í Miðfirði um klukkan 16.22 . Þrír fólksbílar skullu saman við Þverárfjallsveg skammt frá Blönduósi um klukkan 16.06. Fjórtán manns voru í fólksbílunum þremur en þrír af þeim voru fluttir með þyrlu til Reykjavíkur.

„Myndast hálka bara á núll einni“

Heimir Gunnarsson, deildarstjóri þjónustudeildar Vegagerðarinnar á Norðurlandi, segir aksturskilyrði í gær hafa verið erfið og hálka á svæðinu.

„Það var mjög mikill raki í loftinu. Við sáum hér á Akureyri í morgun að það er allt bullandi hrímað. Þarna gerði frostrigningu eftir skýrslunni að dæma, þá breytist ástandið rosalega hratt. Það var búið að fara í eftirlit.“

Ekki hafði verið talin þörf á að hálkuverja umrædda vegi í gær þar sem þeir voru þurrir um morguninn þegar eftirlit fór fram.

Á vef Vegagerðarinnar kom fram að hálkublettir væru á svæðinu en ekki að um hálku væri að ræða. Heimir ítrekar að aðstæður á vegunum geti breyst mjög skyndilega.

„Þarna myndast hálka bara á núll einni. Því að þegar er farið í eftirlit þá eru bara hálkublettir og vegirnir að miklu leyti þurrir og svo gerir þokuloft þegar það líður fram á daginn og svo frostrigningar seinni partinn þegar sólin fer að setjast. Fólk má endilega hafa samband við 1777 til að koma upplýsingum á framfæri. Við komumst ekki yfir alla vegi þegar þessar aðstæður eru að breytast. Eins og um helgar þá eru kannski tveir menn á vaktinni og margir kílómetrar sem þarf að fara yfir,“ segir hann og tekur fram að bílar hafi verið sendir til að hálkuverja á svæðinu um leið og fregnir bárust af umferðarslysunum.

Allir fimm bílarnir ónýtir

Pétur Björnsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðvesturlandi, segir að enginn hafi slasast alvarlega.

„Það var farið með alla til skoðunar. Sumir fóru suður á Landspítalann, einhverjir á Akranes. Þá fóru líka einhverjir á Akureyri til frekari skoðunar eftir skoðun á sjúkrahúsinu á Blönduósi. Allir fimm bílarnir eru ónýtir. við getum sagt að það var mildi að ekki fór verr.“

Tildrög slysanna eru nú til rannsóknar. Búist er við hálku víða á vegum í dag.

„Allir að hafa varann á alltaf, sérstaklega þegar það er hálka. Það er hált á vegum í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×