Skoðun

Á­kærandi, dómari og böðull

Þorgrímur Sigmundsson skrifar

Frumvarp til breytinga á búvörulögum vekur alvarlegar spurningar um valdajafnvægi, samráð og réttaröryggi í íslenskum landbúnaði. Við nánari skoðun blasir við að hér er verið að færa Samkeppniseftirlitinu mun víðtækari heimildir en tíðkast í sambærilegum ríkjum, jafnvel umfram það sem gildir innan EES-réttar. Sú þróun er varasöm, veikir íslenskan landbúnað og þar með fæðuöryggi og kallar á vandaða umræðu.

Megináhyggjuefnið er að Samkeppniseftirlitið virðist samkvæmt frumvarpinu eiga að annast skráningu, eftirlit og úrskurð þegar kemur að framleiðendafélögum. Með öðrum orðum: sama stofnunin yrði bæði ákærandi, dómari og böðull. Það er hreinlega eins og frumvarpið sé skrifað fyrir Samkeppniseftirlitið. Slík samþjöppun valds er almennt talin andstæð grundvallarhugmyndum stjórnsýsluréttar og eykur hættu á geðþóttaákvörðunum og skorti á málefnalegri aðgreiningu hlutverka.

Sérstaka athygli vekur að mjólkuriðnaður er dreginn inn í þetta án nokkurrar ástæðu og skýringar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er ekkert sem bendir til þess að ætlunin hafi verið að ráðast í grundvallarbreytingar á regluverki mjólkurframleiðslu. Þvert á móti hafa aðilar innan greinarinnar, sem búa yfir áratugalangri reynslu af framkvæmd búvörusamninga, lýst yfir verulegum áhyggjum af frumvarpinu og bent á skort á raunverulegu samráði.

Samanburður við Noreg dregur enn frekar fram veikleika frumvarpsins. Þar er ekki gerð krafa um skráningu framleiðendafélaga hjá samkeppnisyfirvöldum til að njóta undanþága frá samkeppnislögum. Þvert á móti hafa norsk stjórnvöld nýlega þrengt heimildir samkeppniseftirlitsins þegar um er að ræða samninga sem byggja á búvörusamningum milli bænda og ríkis. Markmiðið er að tryggja stöðugan og fyrirsjáanlegan rekstur sem og afkomu bænda.

Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum er hætt við að íslenskir framleiðendur landbúnaðarvara standi lakar að vígi en kollegar þeirra í nágrannalöndum. Slík niðurstaða væri hvorki í þágu bænda né neytenda. Atvinnuveganefnd alþingis ber því rík skylda til að fara gaumgæfilega yfir málið, vega og meta afleiðingar af auknum valdheimildum Samkeppniseftirlitsins og tryggja að ekki verði stigið skref sem reynist bæði afdrifaríkt og erfitt að vinda ofan af.

Höfundur er alþingismaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×