Handbolti

Snorri horfir lengra: „Förum ekki í undanúr­slit EM til þess að vera far­þegar þar“

Aron Guðmundsson skrifar
Snorri Steinn ákveðinn á hliðarlínunni. Hann er stoltur af drengjunum sínum
Snorri Steinn ákveðinn á hliðarlínunni. Hann er stoltur af drengjunum sínum Vísir/Vilhelm

Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari Íslands var stoltur af sínum mönnum eftir að sæti í undanúrslitum EM var í höfn. Snorri er búinn að horfa lengra en það og segir sína menn ekki ætla að vera farþega á þessum stað í mótinu.

„Ótrúleg frammistaða hjá mínum mönnum í dag,“ sagði Snorri Steinn í viðtali hjá Henry Birgi eftir sigur á Slóvenum sem tryggði sætið í undanúrslitum. 

Klippa: Snorri stoltur: „Fann að það var eitthvað þarna“

„Það er bara mjög erfitt að lýsa tilfinningunum. Ég þarf kannski aðeins að losna héðan, setjast niður með sjálfum mér og reyna að ná utan um þetta. Auðvitað er þetta risastórt fyrir okkur. Strákarnir eru margir búnir að vera lengi í þessu landsliði, búnir að stefna að þessu lengi og maður hefur fundið það hversu erfitt það hefur verið að komast í undanúrslit. Ég er gríðarlega ánægður með þá og stoltur af þeim. Frammistaðan var frábær í þessum leik.“

Fyrir mót var mikið talað um að leiðin í undanúrslit væri greið. Snorri segir aldrei auðvelt að komast í undanúrslit.

„Það er bara nóg fyrir okkur að kíkja í sögubækurnar til að sjá það. Þetta hefur verið erfitt hjá okkur. Allt umtal og pressa hefur alltaf einhver áhrif en mér finnst strákarnir hafa verið frábærir í þessu. Ég skynjaði bara mjög sterkt í byrjun undirbúningsins hjá okkur, fyrir þetta mót, mikla einbeitingu og ég fann að það var eitthvað þarna. Það er kannski ástæðan fyrir því að við erum komnir þetta langt.“

Ég vænti þess að þetta hafi verið eitt af markmiðunum, að komast í undanúrslit, en varstu búinn að horfa lengra?

„Já ég er búinn að því. Þú ferð ekki í undanúrslit og ætlar þér að enda í þriðja sæti. Það bara virkar ekkert þannig. Ég ætla nú kannski ekki að fara lofa einhverju, við þurfum bara að sjá hverja við fáum í undanúrslitum og annað slík. Við þurfum líka bara að sýna ákveðna auðmýkt, yfirvegun og ná okkur niður. Við erum ekki að fara í undanúrslit á EM til þess að vera einhverjir farþegar. Það bara segir sig sjálft. Við erum með frábært lið og getum náð lengra. Ég hef ekki áhyggjur af því að það verði ekki alvöru fókus hjá okkur á því. Það verða væntanlega lið þarna sem þekkja þetta betur en við, og við þurfum að sýna því virðingu en trúin á okkur hefur ekki minnkað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×