Innlent

Samfylking komi út úr skápnum

Samtök herstöðvaandstæðinga hvetja Samfylkinguna til að skýra stefnu sína í varnarmálum. Þau saka Samfylkinguna um að "bera kápuna á báðum öxlum" í nýjum hugmyndum framtíðarhóps flokksins í varnarmálum. Stefán Pálsson, formaður Samtaka herstöðvaandstæðinga, segir að sú leið sem lögð sé til minni nokkuð á svokallaða "fataskiptaleið" sem framsóknarmenn aðhylltust á áttunda áratugnum. "Ef marka má fréttir vill Samfylkingin halda í varnarsamninginn en losna við herinn. Það er mótsagnakennt, enda gengur varnarsamningurinn fyrst og fremst út á rekstur Bandaríkjamanna á þessari sömu herstöð." Stefán segir að fyrir þingkosningarnar 1999 hafi Samfylkingin viljað leyfa Bandaríkjamönnum að fara ef þeir vildu. "Þá var ekki minnst á varnarsamninginn." Stefán segir að sífellt fleiri í forystu Samfylkingarinnar sjái hve fáranlegt það sé að reyna að ríghalda í bandaríska herstöð. "Hins vegar teldi ég það mun æskilegra og hreinlegra að flokkurinn segði það berum orðum í stað þess að reyna að bera kápuna á báðum öxlum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×