Innlent

Vopnaður friður veldur ófriði

Svo róttækar breytingar hafa orðið á þátttöku Íslands í friðargæslu frá því fyrstu friðargæsluliðarnir voru sendir út í heim til Bosníu fyrir rúmum tíu árum að því er haldið fram að þar sé ekki um stigs- heldur eðlismun að ræða. Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri-grænna heldur því fram að friðargæslan sé orðin vísir að íslenskum her: "Þetta hefur gerst algjörlega án nokkurar umræðu. Á meðan hamast var á Birni Bjarnasyni þegar hann vildi láta æskudraum sinn um íslenskan her rætast, var Halldór Ásgrímsson að stofna hann í kyrrþey." Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra bendir á að Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra hafi þegar árið 1999 kynnt niðurstöðu starfshóps utanríkisráðuneytisins þar sem hvatt var til að Íslendingar taki að sér stærra hlutverk í vörnum landsins. Þar segi: "Sjá verður til þess að mögulegt sé að nýta reynslu og þekkingu þeirra Íslendinga, sem starfað hafa að friðargæslu á erlendum vettvangi, í þágu varna landsins...". Um þetta segir Björn: "Ég sé ekki að hér sé um neina leynd að ræða." Þórunn Sveinbjarnardóttir sem situr í utanríkisrmálanefnd fyrir Samfylkinguna segist andsnúin því að Íslendingar taki að sér þessa tegund friðargæslu: "Stjórnvöld hafa farið í kringum það eins og köttur í kringum heitan graut að þessi friðargæsla krefst vopnaburðar. Þetta er ákveðin tegund af hermennsku. Stjórnvöld hafa reynt að tala sig frá vopnaburði í staðinn fyrir að viðurkenna þetta." Hún segist fylgjandi því að verkefnið í Kabúl sé klárað en Íslendingar eigi fremur að taka að sér verkefni í heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu og fleira eins og áður var. Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra benti á í umræðum á Alþingi í vor að allt frá upphafi friðargæslustarfs Íslands á Balkansskaga hafi verið gert ráð fyrir að íslenskir friðargæsluliðar geti borið vopn og borið hernaðarlega titla eins og raunin er í Kabúl. Halldór sagði: "Það má alveg ljóst vera að okkar fólk getur ekki sinnt þessum störfum við þessar aðstæður nema hafa möguleika til sjálfsvarnar í neyðartilvikum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×