Innlent

Ísland í hlutverki áheyrnarfulltrú

Forsætisráðherra Íslands og Noregs voru tveir einir boðaðir seinna til fundar þegar starfsbræður þeirra frá Norðurlöndunum þremur sem eiga aðild að Evrópusambandinu sátu fund ásamt forsætisráðherrum Eystrasaltsríkjanna í Stokkhólmi í gær. Fundurinn var haldinn í tengslum við Norðurlandaráðsþing sem hefst í dag. Halldór Ásgrímsson segir að sér og Kjell Magne Bondevik hafi verið skýrt frá viðræðum hinna á hálftíma fundi eftir fund hinna sex, en síðan verði forsætisráðherrafundur Norðurlandanna fimm í dag. "Ég met mikils að hafa þennan möguleika á að fylgjast með en ég myndi kjósa að þetta væri á annan veg og við sætum allan fundinn." Halldór segir að samstarfið við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin innan Evrópusambandsins hafi nýst Íslandi vel, til dæmis í fiskimjölsmálinu. Hann sagði að strax á næstu vikum reyndi enn á þessa "hauka í horni" innan ESB þegar stækkun EES kæmist aftur á dagskrá þegar samningum við Búlgaríu og Rúmeníu um aðild að sambandinu lyki á næstu vikum. Ísland skilar af sér formennsku í norrænu ráðherranefndinni á fundi Norðurlandaráðs í dag og mun Halldór Ásgrímsson skýra frá árangri íslensku formennskunnar í ræðu sinni í dag. "Það hefur orðið talsverð framþróun í að ryðja úr vegi hindrunum í samskiptum borgara innan Norðurlandanna en þar hefur Poul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, tekið að sér sérstakt verkefni. Við höfum líka náð að styrkja samstarf Vestur-Norðurlanda. Þá hefur verið lagt í vinnu á sviði lýðræðisþróunar sem ég tel mjög gagnlega." Þing Norðurlandaráðs hefst í dag og lýkur á miðvikudag. Helstu mál á dagskrá þingsins eru einmitt hindranir í samskiptum innan Norðurlanda, vandi lýðræðis, sjálfbær þróun, samskipti við Eystrasaltsríki og Rússland og jafnréttismál svo eitthvað sé nefnt. Á sama tíma og Íslendingar láta af formennsku í samstarfi norrænna ráðherra, taka þeir við forystu í Norðurlandaráði og verður Rannveig Guðmundsdóttir, Samfylkingu, næsti forseti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×