Innlent

Steingrímur reifst við Fogh

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna kvaddi sér hljóðs að lokinni ræðu Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, við setningu Norðurlandaráðsþings í gær. Gagnrýndi hann Anders Fogh harðlega fyrir að víkja ekki aukateknu orði að Írak í ræðu sinni. Fogh svaraði Steingrími með því að veifa pésa með áherslum Dana í forystu Norðurlandasamstarfsins og sagði að mörgum hefði þótt einkennilegt ef í honum og ræðu hans hefði verið fjallað um Íraksstríðið. Steingrímur spurði hvaða afstöðu Danir tækju þegar þeir settust í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, til dæmis ef Bandaríkin vildu ráðast á Íran. „Hvar eru norrænu stjórnvitringarnir eins og Olof Palme sem kröfðust þess að allir skyldu fara að alþjóðalögum, einnig stórveldin. Anders Fogh Rasmussen er ekki einn þeim,“ sagði Steingrímur. Sigurður Kári Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki, segir ræðu Steingríms hafa verið mjög óviðeigandi enda Írak ekki á dagskrá. „Þetta var hreinn dónaskapur,“ sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×