Innlent

Tæpur þriðjungur sendiherra heima

Fram kom í svari Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar á alþingi um sendiherra Íslendinga hér starfa 34 sendiherrar. Tuttugu þeirra starfa erlendis. Þar með er talinn Þorsteinn Ingólfsson sem er í leyfi. Á Íslandi eru starfandi 14 sendiherrar. Fimm þeirra starfa sem skrifstofustjórar í utanríkisráðuneytinu og er einn ráðuneytisstjóri. Þá er Ólafur Egilsson, sendiherra gagnvart Indónesíu, Kambódíu, Malasíu, Singapúr og Taílandi staðsettur á Íslandi. Framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnuna Íslands fellur undir flokk sendiherra, svo og Bergdís Ellertsdóttir sem er við störf í forsætisráðuneyti. Tveir sendiherrar í utanríkisráðuneytinu vinna að sérverkefnum og einn starfar að stefnumótun. Þá eru tveir sendiherrar sem starfa hjá alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins við undirbúning, annars vegar að formennsku í Eystrasaltsráðinu og hins vegar að fyrirhuguðu framboði Íslands til Öryggisráðsins. Útgjöld ríkisins vegna launa sendiherra voru í september 29,4 milljónir sem gerir að meðaltali rúmar tvær milljónir fyrir hvern sendiherra og var ferðakostnaður þeirra 3,1 milljón í sama mánuði eða rúmar 200 þúsund fyrir hvern sendiherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×