Innlent

Stjórn sökuð um að hygla tekjuháum

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi um tekju- og eignaskatt. Stefnt er að því að lækka tekjuskatt um 4% í þremur þrepum, hækka barnabætur og skattleysismörk og fella niður eignaskatta. "Þetta frumvarp er mikið framfaraspor" sagði fjármálaráðherra í framsögu sinni: "Kaupmáttur ráðstöfunartekna hækkar svo að um munar án þess að efnhagslegum stöðugleika sé stefnt í hættu." Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar sagði að stöðugleikinn væri ekki lengur fyrir hendi, verðbólag og viðskiptahalli væri kominn úr böndum. Skattalækkanirnar kæmu fyrst og fremst þeim sem hefðu háar tekjur til góða. Sakaði Össur ríkisstjórnina um að stefna að skattalækkunum sem kæmu til framkvæmdar rétt fyrir næstu kosningar 2007. "Þetta er fugl í skógi ekki í hendi" sagði Össur. Geir H. Haarde sagði að Samfylkingin væri "furðufugl" úti í skógi. Sagði hann stjórnarandstöðuna halda því fram að skattalækkanir væru annars vegar ámælisverðar því þær væru þennsluhvetjarndi og hins vegar fengi rangt fólk lækkanir: "Valda skattalækkanir ekki þennslu ef rétta fólkið fær þær?" Birgir Ármannsson, Sjálfstæðisflokki minnti á að Samfylkingin hefði samþykkt á landsfundi sínum fyrir kosningar að fyrsta forgangsmál flokksins yrði að lækka tekjuskatt í áföngum. Össur svaraði spurningu Birgis engu en sagði að Samfylkingin hefði forgangsröð í skattamálum og þar trónaði matarskattslækkun á toppnum. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna gerði harða hríð að fjármálaráðherra og tók dæmi úr yfirliti Frjálsrar verslunar um tekjur ýmmiss framámanna. Upplýsti hann að miðað við upplýsingar um tekjur þeirra tveggja, hans og Geirs Haarde, fengi fjármálaráðherra allt að 60 þúsund krónur á mánuði í aukningu ráðstöfunartekna og þingmaðurinn sjálfur 35 þúsund. "Við höfum ekkert við þessar skattalækkanir að gera, ég og hæstvirtur fjármálaðherra" sagði Steingrímur J.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×