Innlent

Slitnað upp úr meirihlutaviðræðum

Framsóknarflokkurinn á Dalvík ákvað á fundi sínum í fyrrakvöld að halda ekki áfram viðræðum við I-lista Sameiningu um meirihlutastarf í bæjarstjórn. Valdimar Bragason, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og núverandi bæjarstjóri segir að tillögur Sameiningar muni auka útgjöld bæjarsjóðs og séu því óásættanlegar. Hann vildi ekki gefa upp hvaða tillögur það eru. Óskar Gunnarsson, oddviti Sameiningar, segir að á mánudagskvöld hafi verið lagðar til hugmyndir til umræðu, sem framsóknarflokkur hafi aldrei opnað á. Þá hafi engar útgjaldahugmyndir komið fram, en mikil áhersla lögð á að treysta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Því hljóti Sameining að álykta að eitthvað annað búi að baki skyndilegum viðræðuslitum. Valdimar vísar því til föðurhúsanna að eitthvað annað liggi að baki. Þá hafi tillögur um skipan í nefndir og ráðningar í embætti ekki verið í samræmi við styrkleika flokka, en framsóknarflokkur hefur fjóra bæjarfulltrúa en Sameining tvo. Fulltrúar Sameiningar ætluðu að hittast aftur í gærkvöldi og ræða stöðuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×