Innlent

Konur fæstar í íslenskum stjórnum

Hlutfall kvenna í stjórnum stærstu fyrirtækja hér á landi er aðeins ellefu prósent á Íslandi á meðan hlutfallið á Norðurlöndunum í heild er 16,5%. Ef einungis eru tekin skráð fyrirtæki syrtir enn í álinn því þá er hlutfallið 5% á Íslandi en 18% að meðaltali á Norðurlöndunum.Þetta er niðurstaða skýrslu um hlut kvenna í stjórnum og framkvæmdastjórn 500 af stærstu fyrirtækjum á Norðurlöndunum. Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra var í hópi þeirra sem fylgdu skýrslunni úr hlaði á blaðamannafundi í Osló í gær: "Skýringin er sú að eigendur fjármagnsins eru fyrst og fremst karlar. Þeir þurfa að víkka sjóndeildarhringinn." Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn íslenskra fyrirtækja sem voru í úrtaki þessarar norrænu rannsóknar var hins vegar hærra á Íslandi, 15%, en að meðaltali á Norðurlöndunum, 12%. Tvær íslenskar konur, Rannveig Rist og Kristín Jóhannesdóttir, eru í hópi þeirra 10 kvenna sem valdar hafa verið af Nordic 500 sem áhrifamestu konur í stjórnum fyrirtækja á Norðurlöndum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×