Innlent

Þingmenn reiðast orðalagi

Hópur fólks mótmælti stuðningi Íslands við innrásina í Írak fyrir framan alþingishúsið í gær, líkt og undanfarna daga. Minna var þó um að alþingismenn ræddu við mótmælendur en daginn áður því þingstörf lágu niðri í gær. Í dreifibréfi sem einn af skipuleggjendum mótmælanna sendi í tölvupósti kemur fram að skiltin hafi á þriðjudaginn vakið nokkur viðbrögð meðal þingmanna sem sumir hafi jafnvel reiðst mjög orðalaginu sem á þeim er viðhaft. Í dreifibréfinu kemur fram að til nokkurra orðaskipta hafi komið, en niðurstaða mótmælendanna eftir þau hafi verið að frekar væri þörf á fleiri skiltum en færri. Mótmæli þessi hafa þó ekki verið ýkja fjölmenn, á þriðjudaginn voru átta manns sem mótmæltu þegar fjölmennast var og í hópnum voru sex þegar ljósmyndara bar að garði í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×