Innlent

Stjórnarskráin til grundvallar

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að við endurskoðun stjórnarskrárinnar þurfi að tryggja að löggjafarstarf Alþingis verði með eðlilegum hætti. Halldór skýrði frá skipan nýrrar stjórnarskrárnefndar í ræðu í tilefni af því að aldarafmælisári heimastjórnar á Íslandi er að ljúka. Hann sagði að á liðnu sumri hefði hvesst verulega í íslensku stjórnmálalífi en nú þegar þeirri hríð hefði slotað væri ástæða að hefja þessa vinnu. "Í því starfi þarf að tryggja að löggjafarstarf Alþingis geti gengið fram með eðlilegum hætti, en einnig að tryggja lýðræðislegan rétt almennings til að fá fram atkvæðagreiðslur um mál sem miklu skipta. Þá þarf að skýra betur hlutverk forseta, Alþingis og ríkisstjórnar í stjórnskipuninni." Halldór sagðist hafa skrifað formönnum stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi og óskað eftir tilnefningum frá þeim í stjórnarskrárnefnd. Nefndin verður skipuð alls níu fulltrúum; þremur frá Sjálfstæðisflokki, tveimur fulltrúum frá Samfylkingu og Framsóknarflokki og einum fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og Frjálslynda flokksins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×