Innlent

Mótsögn í tilmælum borgarstjóra

Leikskólastarfsmenn eru ósáttir við tilmæli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra um að stjórnendur á vinnustöðum borgarinnar bregðist jákvætt við óskum kvenna um að leggja niður störf á mánudag vegna kvennafrídagsins án þess að skerða nauðsynlega þjónustu. Þeir segja slíkt ómögulegt. Leikskólastarfsmönnum, sem eru að stórum hluta konur, er misboðið vegna yfirlýsingar borgarstjóra um að yfirmenn á vinnustöðum borgarinnar bregðist vel við óskum kvenna um að leggja niður vinnu á mánudaginn klukkan 14.08 eins og aðstandendur baráttudags kvenna hafa mælst til. Borgarstjóri hvetur konur til að komast að samkomulagi við samstarfsmenn og stjórnendur um tilhögun þannig að þjónusta skerðist ekki en bent hefur verið á að slíkt sé ógerlegt á leikskólum þar sem stærstur hluti starfsmanna séu konur og því muni þjónustan skerðast ákveði konur að leggja niður störf. Kristjana Helga Thorarensen, leikskólastjóri á Ægisborg, segir að tilmælin hljómi einkennilega þar sem Reykjavíkurborg sé örugglega stærsti kvennavinnustaður landsins. Ef ekki eigi að skerða þjónustu á leikskólum og frístundaheimilum fari engin þaðan og taki þátt í þessari samstöðu kvenna á mánudaginn. Hún telur að það vanti samstöðu og skortur sé á þeirri baráttu sem hafi einkennt Kvennalistann. Hún sé hrædd um að Bríet Bjarnhéðinsdóttir og gamlar baráttukonur sem hafi barist fyrir þeim réttindum sem konur hafi þó myndu segja eitthvað ef þær væru uppi núna. Kristjana segir að útlit sé fyrir það að hún þurfi að velja starfsfólk sem fari á baráttufundinn, en það fari eftir því hversu margir foreldrar sæki börnin sín fyrr.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×