Innlent

Seðlabankinn hækki bindi- og lausafjárskyldu bankanna

Útgáfa skuldabréfa í krónum erlendis hefur aukist um ellefu milljarða króna á tveimur dögum. Vegna þessa hækkaði gengi krónunnar enn í morgun og evran hefur ekki verið lægri gagnvart henni í meira en fimm ár. Prófessor í hagfræði segir að Seðlabankinn verði að hækka bindi- og lausafjárskyldu bankanna til að mæta ört vaxandi verðbólgu.

Gengi krónunnar hækkaði enn í morgun eftir mikla hækkun í gær og er það rakið til stóraukinnar útgáfu skuldabréfa, sem tryggð eru í íslenskum krónum. Hún nemur nú 11 milljörðum á aðeins tveim dögum og 111 milljörðum alls. Dollarinn er nú kominn undir 60 krónur og Evran í 72 krónur og hefur ekki verið ódýrari síðan í júní árið 2000. Þá var vöruskiptahalli við útlönd 12,5 milljarðar króna í október og hefur aldrei mælst meiri í einum mánuði.

Verðbólgan á hraðri uppleið og mælist nú tæp tíu prósent á ársgrundvelli miðað við hækkun á verðlagi undanfarna þrjá mánuði. Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, telur að Seðlabankinn geti gert sitt til að ná verðbólgunni niður, og á þá ekki bara við enn frekari stýrivaxtahækkanir, sem leggi alla ábyrgðina á útflutningsgreinarnar, sem eigi í nægum vanda vegna hás gengis krónunnar.

Þórólfur segist vilja sjá Seðlabankann athuga hvort ekki væri hægt að hækka bindiskyldu og draga þannig úr útlánum bankanna því þau hafi aukist mjög á mikið á undanförnu ári. Seðlabankinn geti því notað fleiri meðul. Þórólfur segist vita að menn séu svolítið tregir til að gera það því þau virki með handahófskenndari hætti en stýrivaxtahækkanirnar. Nú séu hins vegar óvenjulegir tímar og það verði að takast á við þá með öllum þeim meðulum sem hægt er.

Seðlabankinn ræður ekki við verðbólguna einn síns liðs og Þórólfur segir að stjórnvöld verði að sýna meira aðhald. Það sé ekki rétt að benda á afgang af fjárlögum því það segi ekki alla söguna. Það verði að líta til allra hluta ríkissjóðs og þá verði að taka Landsvirkjun inn í dæmið vegna þess að hún sé að framkvæma samkvæmt ákvörðun stjórnmálamanna. Þeir hafi ákveðið að fara út í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar úti á landi. Þá verði að skapa rými í hagkerfinu fyrir það og þar verði menn að standa sig betur en þeir hafi gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×